SIÐBÓTARKRAFAN
Ávarp í Hátíðarsal Háskóla Íslands í upphafi Prestastefnu
Ég færi Prestastefnu kveðjur ráðuneytis kirkjumála og óskir um velfarnað í starfi og fagna því að hún skuli vera sett hér í hátíðarsal Háskóla Íslands sem á aldarafmæli á árinu. Ég vil jafnframt í upphafi máls míns þakka kirkjunni fyrir allt það góða sem hún hefur látið af sér leiða í tímans rás.
Ég segi að ég þakki kirkjunni og er ég þá vissulega að þakka henni sem stofnun en þó fyrst og fremst að vísa í hana sem samfélag, hreyfingu og vekjandi afl, bæði andlegt og félagslegt.
Samkvæmt mínum skilningi á eðli og inntaki kristinnar trúar er boðskapur hennar róttækari en nokkur pólitík: Hann felur í sér afdráttarlausa kröfu um grundvallar uppstokkun og stöðuga endurskoðun á því verðmætamati sem almennt viðgengst í mannlegu samfélagi varðandi auð, stöðu og virðingu.
Þegar íslenskt þjóðfélag stendur á krossgötum er við hæfi að Prestastefna sé kölluð saman undir þessum formerkjum, Kirkjan á krossgötum, til að ræða stefnur og strauma innan Kirkjunnar og utan.
Hin frjóa umræða sem farið hefur fram á undanförnum mánuðum og misserum, ekki síst af hálfu kirkjunnar manna, um stöðu kristinnar trúar í íslensku samfélagi og stöðu kirkjunnar sem þjóðkirkju er um margt mjög eftirtektarverð. Þannig minnti séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum í Kjós, okkur á það í blaðagrein í september síðastliðnum, að helstu mótendur íslenskrar trúarhefðar, þeir séra Hallgrímur og meistari Vídalín hefðu farið sparlega með hugtakið „kirkja" í ræðu og riti. Það hugtak hafi ekki komið fyrir í Passíusálmunum og í Postillunni hafi Vídalín verið tamara að tala um „kristna menn" og „kristindóminn" eða til hátíðabrigða um „... Guðs kirkju í mannanna hjörtum."
„Þeir voru nær," segir séra Gunnar, „hinum lúthersku rótum trúarmenningar þjóðarinnar sem forðaðist stofnanavæðingu trúarinnar og einnig miðstýringu trúarsamfélagsins. Þetta er umhugsunarvert", bætir hann við, „á tímum þegar íslenska þjóðkirkjan siglir úfinn sjó; og orðræðan beinist að kirkjunni sem stofnun."
Kynni mín af kirkjunni eftir að ég komst á fullorðinsaldur voru ánægjuleg og einmitt á þá lund að kirkjunni tókst að hefja sig yfir sjálfa sig sem stofnun ef þannig má að orði komast. Þetta var meðal annars að tilhlutan Hjálparstofnunar kirkjunnar þegar Guðmundur Einarsson og séra Gunnlaugur Stefánsson, nú prestur í Heydölum, stóðu þar í stafni.
Sem sjónvarpsfréttamaður ferðaðist ég með fulltrúum hjálparstarfsins til Póllands og til Eþíópíu í Afríku og kynntist þar því mikla og óeigingjarna starfi sem fulltrúar íslensku kirkjunnar, séra Bernharður Guðmundsson og fleiri góðir menn, höfðu unnið og svo einnig til Norður-Pakistans, upp undir landamærin að Afganistan. Þar er iðkuð islamstrú, sem kunnugt er, og í sínu strangasta formi, en þó einnig önnur afbrigði Islams og öllu frjálslyndari. Hinir íslensku starfsmenn Hjálparstofnunar kirkjunnar spurðu aldrei um trú manna eða félagslega stöðu þegar þeir réttu þurfandi fólki hjálparhönd.
Stoltastur hef ég verið af íslensku þjóðkirkjunni þegar henni hefur tekist að hefja sig yfir sjálfa sig með þessum hætti og nefni ég þar samstarf sem hún hefur átt við aðrar trúarhreyfingar innan lands og utan. Minnist ég þess þegar biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson og trúarleiðtoginn frá Tíbet, Dalai Lama, efndu til sameiginlegrar trúar- og hugleiðslusamkomu í Hallgrímskirkju árið 2009.
Margt eiga kirkjan og stjórnmálin sameiginlegt. Að því leyti skarast kirkjan og stjórnmálin að hlutverk kirkjunnar hefur ávallt verið að standa hina spámannlegu vakt - hina veraldlegu réttlættisvakt - í samfélaginu; með því að halda að okkur hinum siðrænu gildum eins og Jón Aðalsteinn Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum, minnti okkur á í Dómkirkjunni á mjög áhrifaríkan hátt. Hvað umgjörð áhrærir kann einnig að vera sumt sem er skylt með kirkjunni og stjórnmálunum.
Þannig er ég sannfærður um að íslenskt stjórnmálalíf stendur á krossgötum ekkert síður en kirkjan telur sig gera. Á vettvangi stjórnmálanna þykir mér margt benda til þess að stofnanakerfið - það er að segja stjórnmálaflokkarnir - muni meira og minna riðlast á nýrri lýðræðisöld. Fólk kann áfram að vilja skipa sér í fylkingar og flokka og eflaust að einhverju marki heyra stofnunum til, en sú samstaða sem fólk kemur til með að vilja sjá, mun snúa að markmiðum og að boðskap en ekki stofnunum. Það verður með öðrum orðum ekki spurt um stuðning við flokk heldur við stefnu og við hugsjón.
Fólk mun spyrja fyrir hvað stendurðu, hver eru þín markmið og boðskapur, en ekki í hvaða stjórnmálaflokki ertu, hvaða stofnun heyrir þú til? Þetta verður Siðbótarkrafan í íslensku stjórnmálalífi á nýrri öld og í samfélaginu almennt og mun án efa taka til kirkjunnar sem stofnunar einnig.
En kirkjan hefur alla burði til að standa hér vel að vígi ef hún er köllun sinni trú. Til kirkjunnar eru gerðar miklar kröfur og án efa þykir mörgum kirkjunnar mönnum þær stundum vera ósanngjarnar. Á því er þó sú jákvæða hlið að kröfur á hendur einstaklingum og stofnunum eru oftar en ekki í réttu hlutfalli við þær væntingar sem fólk hefur til þeirra og þar með þeirrar virðingar sem þær njóta.
Þegar allt kemur til alls er gerð til kirkjunnar krafa um hið ómögulega: Hún á að vera hafin yfir gagnrýni, jafnframt því sem reist er sú krafa á hendur henni að hún sé siðvæðandi og ögrandi afl; að hún veki okkur til vitundar um mennsku okkar. Hér er komin sú mótsögn sem kirkjan sem stofnun þarf að glíma við. Annars vegar á hún að vera ímynd stöðgleika, óbifanleg, áreiðanleg og óumdeilanleg, en á hinn bóginn er gerð sú krafa að hún hreyfi við okkur, veki okkur til lífsins með afgerandi hætti. Í þessum skilningi yrði afstöðuleysi og íhaldsssemi kirkjunnar storkandi í neikvæðum skilningi. Kristur fórnaði öllu til að vekja manninn til vitundar um mennsku sína. Hann óttaðist ekki höfnun en var hafnað, var negldur á kross frammi fyrir spillingu samfélagsins. Hið veraldlega vald bauð honum sættir en hann vildi ekki gera sátt við spillingu heimsins.
Boðendum kristinnar trúar er vandi á höndum. Þeir þurfa að þræða hinn gullna veg. Ekki á milli staðfestu og ögrunar. Heldur þurfa þeir að vera staðfastir og ögrandi í senn.
Sem slíkir eiga þeir erindi við okkar samtíð. Kannski meira einmitt nú en í langan tíma.
Sem stofnun hefur kirkjan þurft að sæta miklum niðurskurði eins og aðrar stofnanir í samfélagi okkar. Því miður sér enn ekki fram úr þeim þrengingum sem við er að stríða. Án þess að ég vilji gefa nokkur fyrirheit um framhaldið - reyndar er boðaður niðurskurður á komandi ári - þá vil ég engu að síður bjóða kirkjunni að tilnefna tvo fulltrúa í starfshóp með fulltrúum innanríkisráðuneytisins sem meti hvaða áhrif niðurskurðurinn hefur haft á starfsemi kirkjunnar og hverjar yrðu afleiðingarnar ef haldið yrði áfram á þessari braut. Þar með er ég að bregðast við ákalli biskups sem lýst hefur þungum áhyggjum yfir stöðu mála í formlegu erindi til mín sem ráðherra kirkjumála.
Ég er meðvitaður um ábyrgð mína sem aðili að framkvæmda- og fjárveitingarvaldi. Mitt hlutverk er meðal annars að halda til haga hagsmunum skattgreiðenda og ríkissjóðs en við sem höfum þetta verkefni með höndum þurfum jafnframt að vera meðvituð um afleiðingar gerða okkar.
Ég nefni sem dæmi um afleiðingar niðurskurðarins að starf vímuvarnaprests hefur verið lagt niður þótt sá sem því starfi gegndi hafi rækt hlutverk sitt án endurgjalds að nokkru leyti. Ég vil taka það fram að þetta hef ég ekki frá viðkomandi einstaklingi sjálfum heldur frá þeim sem fylgdust með voðaatburði helgarinnar þegar ung efnileg stúlka lét lífið af völdum eiturlyfja og hlú þurfti að ýmsum vinum og vinkonum hennar.
Spurt er um aðskilnað ríkis og kirkju. Mitt svar er á þá lund að sá aðskilnaður hafi að uppistöðu til þegar farið fram. Kirkjulögin frá 1997 gerbreyttu samskiptum ríkis og kirkju í grundvallaratriðum. Vald sem áður hafði legið í Stjórnarráði Íslands liggur nú hjá kirkjunni sjálfri, sem stofnunar og sem lýðræðislegrar hreyfingar. Sögulega séð hefur Prestastefna verið rödd kirkjunnar inná við og útávið, um brýn mál innan kirkju og samfélags. Ásamt kirkjuþingi, hinum lýðræðislega vettvangi Þjóðkirkjunnar, hefur hún því hlutverki að gegna og til hennar er horft hverju sinni í samræmi við þetta mikilvæga hlutverk.
Ég ítreka óskir mínar til prestastefnu um árangursrík störf í þágu þjóðar og kirkju.