Fara í efni

SÍÐSOVÉSKAR VANGAVELTUR

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 22.12.10
Í fyrirsögn Morgunblaðsins í gær segir að ég hafi fyrst frétt af hjásetu þriggja þingmanna VG við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið. Þetta er ekki rétt. Ég hafði frétt af þessu áður og málið síðan verið til umræðu á þingflokksfundi fyrir atkvæðagreiðsluna. Að þessu leyti kann ég að hafa verið óljós eða misvísandi í ummælum við fréttamann. En að þessu frátöldu er fréttin rétt. Þannig er rétt eftir mér haft í beinni tilvitnun að á spjallfundi nokkru fyrir atkvæðagreiðsluna, sem Morgunblaðið hefur gert að umtalsefni, höfðu umræddir þingmenn enga ákvörðun tekið í þessum efnum.

Og að gefnu tilefni vil ég segja að af þeirra hálfu hafa engar ráðagerðir verið að fella ríkisstjórnina nema síður væri, þótt marga langi greinilega til að gera því skóna. Hitt þykir mér sérstakt í þessari umræðu að fjölmiðlar sumir hverjir skuli spyrja, að því er virðist í fullri alvöru, hvort þeim þingmönnum sem sátu hjá við atkvæðagreiðsluna sé »sætt í þingflokknum«. Á mannamáli þýðir þetta hvort reka eigi fólkið úr flokknum! Ég hélt að þessu tímabili brottrekstrar og útskúfunar úr stjórnmálaflokkum hefði lokið með falli sovéska kommúnistaflokksins. Síðsovéskar vangaveltur sumra fjölmiðlamanna í þessa veru nú hafa óneitanlega komið mér á óvart. Alþingismenn eru vissulega kjörnir á þing undir merkjum stjórnmálaflokka. En þar innandyra hefur enginn rétt til að reka félaga sína á dyr. Við skulum ekki gleyma því að öll erum við að reyna að efna þau fyrirheit sem við gáfum kjósendum okkar þótt okkur kunni stundum að greina á um leiðir í þeim efnum.

Ögmundur Jónasson