HEILBRIGT FÓLK Í HEILBRIGÐU SAMFÉLAGI
Margt hefur áunnist í bættri heilsu landsmanna á síðustu öld. Mataræði, húsakostur og hreinlæti hefur batnað stórum og með vatnsveitum og lagfæringum í fráveitumálum dró úr margs konar lífshættulegum smitsjúkdómum. Á sama hátt er lögð mikil áhersla á hvers konar hreyfingu og íþróttaiðkun ungra sem aldinna.
En það eru líka skuggahliðar, ekki síst hvað varðar börn og unglinga. Mikið er talað um að börn og unglingar hreyfi sig ekki nóg og það kemur niður á heilsunni. Börn eru mikið til hætt að leika sér úti, enda leiksvæðin miklu takmarkaðri en í "gamla" daga. Þar sem áður voru malarhaugar til að róta í, lækir og pollar að sulla í og móar að stökkva um og leita jafnvel að hreiðrum eru nú malbikaðar eyðimerkur. Leiksvæðin eru stöðluð, með körfuboltaspjaldi, rólu og sandkassa, bjóða ekki upp á að nota ímyndunaraflið í skapandi leik. Börn eru ekkert öðrvísi nú en hér áður fyrr, þrátt fyrir öll nútíma þægindi. Þau vilja láta tala við sig og fá að leysa þrautir, en þau þurfa líka nærveru fulloðins fólks og er til t.d. sú nýja stefna að ryðja sér til rúms í íþróttastarfi innan veggja leikskóla og skóla að börnin þurfa sjálf að finna út hvernig leysa eigi verkefnin.
Skipulagt tómstundastarf barna og unglinga veldur stundum miklu stressi, því í geggjuðu samkeppnisþjóðfélagi, eins og búið er að skapa á Íslandi, þurfa allir að hafa allt og taka þátt í öllu. Foreldrar, systkini, ömmur og afar eru á látlausum ferðalögum síðdegis til að keyra afkvæmin úr spilatíma í danstíma eða á íþróttaæfingu. Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur hefur reyndar upp á síðkastið byggt upp möguleika á samfelldri viðveru og unnið þannig gegn þessum þeytingi og sama má segja um önnur sveitarfélög.
Ekki má heldur gleyma því að allar þessar kröfur um frístundastarf kosta foreldra mikla peninga. Og þegar fólk er barnmargt getur það hreinlega riðið fjárhagnum að fullu. Þá þarf að vinna meira og þá verður minni tími fyrir "eðlilegar" samvistir fjölskyldunnar.
Ein meinsemdin í samfélaginu er krafan um að börnum og fullorðnum megi ekki leiðast. Þau þurfi alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni og það þurfi að hafa ofan af fyrir þeim. En lífið er nú einu sinni ekki tómur leikur og skemmtun og það getur verið hollt fyrir barn að sitja úti í horni og lesa bók.
Mikið er talað um hreyfingarleysi barna og langar setur eða legur fyrir framan sjónvarp og tölvur. Þar þarf að vera eitthvert jafnvægi en víst er að fyrirmyndir foreldranna eða þeirra fullorðnu eru afar mikilvægar á þessu sviði.
Yfirskrift þessarar umræðu er heilbrigt fólk í heilbrigðu samfélagi. Stundum veltir maður fyrir sér hvort sé ekki nokkuð í lagi með fólkið, það sé sæmilega heilbrigt, en samfélagið sjúkt.
Sjúkdómseinkennin leyna sér ekki.
Hraðinn og lætin og samkeppnin er alls staðar. Hraðinn "sem drepur" er ekki bara á þjóðvegunum, þar sem betri vegum og kraftmeiri bílum fylgja skelfilegri bílslys.
Krafa um samkeppni í skólakerfinu leiðir af sér að þeim sem fram úr skara er hampað en minna hugsað um hina sem eftir sitja, "taparana." Þeim er ekkert hampað og á stundum ekki mikið hjálpað. Sama er í vinnuumhverfinu. Allir eiga að koma sér á framfæri, hafa ferilskrá og safna sér alls konar punktum, allt í samræmi við margumtalaða mannauðsstjórnun. En er ekki svolítil yfirborðsmennska í öllu talinu um mannauðsstjórnun?
Þá er krafan um að hafa allt strax. Allir þurfa að eiga íbúð og bíl og alls konar græjur. Ekkert af þessu er ókeypis og þýðir líka að menn verða að afla meira fjár og vinna meira.
Þessi mikla vinna, sem Íslendingar dásama svo mjög, er frekar löstur en kostur því það kemur niður á samvistum fjölskyldunnar og vina, sem í hinu orðinu er talið eitt það mikilvægasta í mannlegu samfélagi. Það er líka oft spurning um afköstin eða vinnugæðin. Þau eru ekki alltaf upp á það besta, enda er nú mikið kvartað um lélegan frágang á öllu, t.d. íbúðarhúsnæði, þar er ekki útlenskum verkamönnum um að kenna heldur eru það græðgisfullir Íslendingar sem virða hvorki lög né samingsbundin réttindi fólks.
Varðandi aðbúnað erlendra farandverkamanna, sem er einn ljótasti bletturinn á íslensku samfélagi, þá langar mig að rifja upp stutta frásögn í nýútkominni minningabók, Danska frúin á Kleppi, sem er tekin saman af 87 ára gamalli konu, Hildigunni Hjálmarsdóttur sem sannar glæsilega að aldraðir geta staðið fyrir sínu. Hér er sagt frá danskri konu sem fluttist til Íslands í upphafi 20. aldar. Mágur hennar, sem rak verksmiðju í Svíþjóð, byggði bústaði fyrir yfirmenn þar sem ekkert var til sparað og m.a. byggt klúbbhús sem varð miðstöð skemmtanalífs yfirmanna þar sem voru haldnar samkomur, margs konar tónlistaratburðir, sungið og dansað. Síðan segir: "Olnbogabörn þessa samfélags voru farandverkamennirnir, flestir Pólverjar sem höfðu flúið atvinnuleysið heima fyrir. Vegna húsnæðisskorts var þeim hrúgað saman í dimma og loftlausa bragga. Þeir höfðu komið til Svíþjóðar tötrum klæddir og sumir skólausir og lifðu í einangrun frá umhverfinu og sendu heim til ættmenna sinna hluta lágra launa." Kannast einhver við þetta ástand?
Í þessu sambandi má minnast þess þegar góðar konur á Egilsstöðum prjónuðu ullarsokka á erlendu verkamennina á Kárahnjúkum í staðinn fyrir að búið væri vel að þeim og framámaður í verkalýðshreyfingunni hefur kallað hýbýlin á Kárahnjúkum hundakofa. En hér í höfuðborginni eru líka mörg dæmi um skammarlegan aðbúnað erlends verkafólks. Við sem búum í þessu landi höfum horft upp á þetta án þess að gera neitt. Slíkt er ekki góð fyrirmynd fyrir börnin okkar, að við níðumst á fólki sem ekki þekkir að fullu rétt sinn.
Íslenskar fjölskyldur leysa gjarnan vanda sinn innan heimilis, með því að borga öðrum til þrífa skítinn heima hjá sér og í mörgum tilfellum eru það erlendir borgarar. Þannig er leystur hinn feminiski vandi um verkaskiptingu á heimilinu og hver á að gera hvað. En hvaða skilaboð eru það til barnanna að það komi einhver utanaðkomandi og vinni leiðinlegustu verkin, oftast af öðru þjóðerni. Þar fer líka í súginn verkkunnátta sem allir þurfa á að halda, þ.e. að kunna að þrífa í kringum sig.
Mítan um að þeir sem vinna opinber störf séu latir, hysknir og nenni ekki að vinna vinnuna sína hefur verið notað sem rök fyrir að það þurfi að einkavæða. Ég var á fundi hjá Vinnueftirlitinu þar sem kynnt var skýrsla ríkisendurskoðunar um störf Vinnueftirlitsins. Og þar kom fram það álit ríkisendurskoðunar að það væri nauðsynlegt að markaðssetja ákveðna þætti sem varða öryggisþætti Vinnueftirlitsins. Þegar var farið að spyrja þá, sem þetta kynntu, voru einu rökin þau að hver myndi ekki eftir hvað ömurlegt Bifreiðaeftirlit ríksins hefði verið og hvað allt væri gott eftir að það hætti!
Að lokum aftur að heilbrigðisþjónustunni sem er mjög dýr. Á undanförnum árum hafa komugjöld og þjónusta, sem fólk hefur þurft að fá í heilbrigðiskerfinu, hækkað mjög og þó að þak sé til staðar þá er maður alltaf að borga eitthvað ef hann þarf á þjónustunni að halda. Það er t.d. makalaust að við skulum ekki hafa þjónustu við börn ókeypis. Ég hef talað við aðstandendur sem hafa farið með börn sín í greiningu og þurft að borga allt að áttatíu þúsund krónur fyrir greiningu af því að það gekk ekki að fá hana hjá Greiningarstöð ríkisins. Foreldrar þurfa sjálfir að fara með börn sín í greiningu vegna lesblindu og kosta það sjálfir en hafa fengið neitun frá kerfinu. hefur þá oft komið í ljós að hugboð foreldranna um vandann var rétt. Úrræði fyrir börn sem eiga í vanda þurfa að vera markviss og skilvirk og þau eiga ekki að þurfa að líða fyrir úrræðaleysi þjóðfélagsins og þar á ekki að einblína á kostnaðarvitund barnsins. Þar sem ég vinn, á Unglingageðdeildinni, hafa börn sagt við mig: "Ég er nú heppin að komast hingað, hér komast svo fáir að; er ekki voða dýrt að hafa mig hér?"
Bragð er að þá barnið finnur.
Talað er um kostnaðarvitund sjúklinga, eins og sárveikt fólk eigi gott með að bera saman möguleika í heilbrigðismálum. Heilbrigðisþjónustan er ekki venjulega "vara". Það er ekki það sama að leggjast inn á sjúkrahús og að kaupa sér nýjan bíl eða þvottavél. Hin mjög svo dásömuðu markaðslögmál eiga ekki við um rekstur heilbrigðiskerfisins.
Ég ætla að enda þetta á stuttu kvæði eftir Heiðrek Guðmundsson frá Sandi sem heitir "Barn kreppunnar."
Vega salt í sálu þinni
sitt á hvað, án niðurstöðu,
fornar dyggðir, félagshyggja,
frelsisþrá og skyldukvöð.
Margt er falt, og frómar óskir
fangað geta hug þinn stundum.
Hvað þú eigir úr að velja,
er þitt höfuðvandamál.
Hikar þú og þorir ekki.
Þér í blóð og merg er runninn
kreppusöngur æskuára.
Aldrei færðu þaggað hann.