TRÚBOÐ ALÞINGIS-MANNSINS
Það undrar mig hvers vegna Sigurði Kára Kristjánssyni er svo í mun að níða niður ákvarðanir heildarsamtaka BSRB um að bjóða þekktum fræðimönnum að fjalla um afleiðingar einkavæðingar heilbrigðiskerfisins. Ég er búin að vinna með hléum í heilbrigðiskerfinu frá því l968 og hef hlustað á margan fyrirlesturinn um hvað nauðsynlegt sé að einkavæða helst sem mest, svo að hægt sé að brjóta niður það heilbrigðiskerfi sem við höfum. Eitt sinn hlustaði ég á Hjálmar Árnason halda fyrirlestur á ráðstefnu, sem var haldin af hinu opinbera og borguð af skattpeningum mínum, um hvað hann hefði lært mikið í Kanada um hvernig ætti að einkavæða skóla. Þannig var það gert í því landi að fyrst var einkavæddur einn skóli og hann fékk aukafjárveitingu til þess, síðan tók hann annan skóla í fóstur og síðan koll af kolli. Ekki fylgdi sögunni að betri árangur hafi náðst í skólunum eða að nemendum liði betur.
Því hef ég verið mjög ánægð með það að heildarsamtök mín, sem er BSRB, hafi undanfarin fjögur ár fengið tvo virta fyrirlesara frá frændþjóðum okkar, Svíþjóð og Skotlandi, til að kynna okkur reynsluna af einkavæðingunni. Það hafa verið fengnir margir aðrir fyrirlesarar til að ræða þessi mál í gegnum tíðina, bæði innlendir og erlendir, af hálfu BSRB og einnig SFR sem er stéttarfélagið mitt, og er ég þakklát fyrir það. Þeir hafa bæði talað með og móti einkavæðingu eins og þegar siðmenntað fólk ætlar að kynna sér málefnið en við hlustum ekki bara á Friedmann og frjálshyggjupostulana.
Bið ég Sigurð Kára að kynna sér bæði hvernig stéttarfélög eru uppbyggð og einnig hvernig lýðræðishefðir eru uppbyggðir og kynna sér hvernig ákvarðanir eru teknar á BSRB þingum. Ég man þegar Friðrik Sophusson, sem þá var fjármálaráðherra, vildi að þeir sem borguðu 7.500 krónur hefðu forgang inn á sjúkrahúsin í landinu en sem betur fer gekk það ekki eftir. Alltaf hef ég verið glöð að fá að vera í stéttarfélagi og ekki pínd til þess og oft séð gagnsemi þess þegar brotið er á launafólki, ekki launþegum eins og Sigurður Kári segir, við þiggjum ekki laun, við vinnum fyrir þeim.
Þrátt fyrir að ég sé ekki alltaf ánægð með hvaða stefnu ríkið hefur tekið varðandi það í hvað skattpeningar mínir hafa farið, þá er ég glöð með að borga skatta því að ég veit að þeir peningar fara t.d. í heilbrigðis-, mennta- og félagsmálakerfið. Vona ég að þeir fari þangað áfram óskertir án þess að einhverjir gamblarar hagnist á útboðum við ríkið.
Sigríður Kristinsdótti
sjúkraliði