Fara í efni

SIGURÐUR R. GUÐMUNDSSON KVADDUR

Í gær fór fram útför Sigurðar frænda míns Gðumundssonar. Feður okkar, þeir Guðmundur og Jónas B. Jónssynir frá Torfalæk í Húnavatnssýslu, voru bræður.
Útförin var falleg, orgelleikur með ágætum, frábær söngur félaga úr Fóstbræðrum og presturinn séra Þráinn Haraldsson prýðisgóður; öll umgjörð traust.

Þá kemur að því sem ég vildi ekki láta ósagt, nefnilega hve skemmtileg þessi athöfn var. Þetta er óvenjuleg lýsing á jarðarför enda var hún ekki venjuleg. Það hafði einmitt verið hinsta ósk hins látna frænda míns að þegar að því kæmi að hann yrði kvaddur þá ættu kirkjugestir góða og ánægjulega stund, helst skemmtu þeir sér!
Þetta var mjög í samræmi við galgopann í karakter Sigurðar Guðmundssonar, eins máttarstólpanna þriggja sem um áratugaskeið stýrðu Skíðaskólanum í Kerlingafjöllum. Hinir voru Valdimar Örnólfsson og Eiríkur Haraldsson, báðir fyrrum kennarar mínir í MR.

Kvöldvökur í Kerlingafjöllum voru annálaðar fjörsamkomur með miklum söng, glensi og gamni. Þarna mun Sigurður hafa notið sín og var það reyndar svo að hvarvetna sem hann fór fylgdi honum söngur og glaðværð.
Haft var eftir Sigurði þegar hann fékk heilablóðfall fyrir nokkrum árum, að varla væri orð á þessu gerandi, hann myndi dansa sig og syngja til heilsu a ný. Og gott ef honum tókst það ekki!

Og nú höfðu börnin hans fengið það vandasama hlutverk að kveðja föður sinn í kirkju á þann hátt að kirkjugestir ættu saman ánægjulega og helst glaða stund. Þetta tókst þeim. Á vel afmarkaðri “kvöldvöku” tóku börn Sigurðar fram gítara og sungu okkur til gleði og ánægju. Síðar kom Allt eins og blómstrið eina. Öllu tilhlýðileg virðing sýnd.
Þessi minningarathöfn minnti okkur sem sóttum hana á það hverju jákvæðni og glaðværð fær skilað. Gerir lífið léttara og skemmtilegra.
Takk frændi sæll.

Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.