SILFUR EGILS FÉKK GULL Í DAG
Stundum þarf útlendinga til sögunnar svo Íslendingar hlusti. Þetta skilur Egill Helgason flestum betur. Hann á mikið lof skilið fyrir þætti sína Silfur Egils undanfarna mánuði. Ekki er nóg með að Egill hafi veitt talsmönnum Búsáhaldabyltingarinnar aðgang að öldum ljósvakans heldur hefur hann nú trekk í trekk fært okkur fólk "utan úr heimi" til að varpa ljósi á stöðu Íslendinga. Þetta hafa verið einstaklingar sem mark er tekið á. Þannig kom Eva Joly fyrst fram í Silfrinu hjá Agli og vakti þjóðina til lífsins og kveikti von um að hægt væri að rekja svikaslóðir og jafnvel finna stolið fé.
Í dag voru síðan mættir í Silfrið tveir valinkunnir Bandaríkjamenn sem vara okkur við Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og minna á að hann er fyrst og fremst varðhundur auðvaldsins. Hárrétt.
Þetta eru annars vegar Michael Hudson, fræðimaður og ráðgjafi Bandaríkjastjórnar í ýmsum málefnum en hann vinnur nú að endurskoðun á bandarísku skattalöggjöfinni. Hinn er John Perkins, höfundur Confessions of an Economic Hit Man og The Secret History of the American Empire.
John Perkins þekkir af eigin raun ofbeldi auðvaldsins því hann hefur sjálfur reynslu af því að vinna fyrir alþjóðlegt fjármálafyrirtæki sem sannfærði fátækar þróunarþjóðir til að skuldsetja sig svo hægt væri síðar að hafa af þeim eignir þeirra. Viðpbjóðslegt? Það þykir John Perkins. Þess vegna vísað í syndajátningu í bókartitli.
Nú ríður á að Íslendingar láti ekki bugast. Aldrei hefur verið eins mikilvægt að halda þjóðareign á auðlindum okkar. Það var og kjarninn í boðskap þessara tveggja gesta okkar.
Þetta var góður þáttur hjá Agli í dag. Þar voru auk þessara erlendu gesta ágætir íslenskir viðmælendur. Þegar á heildina er litið má segja Silfur Egils hafi fengið gullið í dag.
Slóðin á Silfrið: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4464762/2009/04/05/
Grein eftir Hudson í Fréttablaðinu í gær: http://visir.is/article/20090401/SKODANIR03/461500915