Fara í efni

SÍMADÓNARNIR

Í lesendabréfi hér á síðunni fer Ólína mikinn út af því að Skjár einn skuli senda út knattspyrnuleiki með enskum þulum og þar á eftir ræðst hún harkalega að yfirstjórn Símans fyrir að bjóða notendum Breiðbandsins upp á kóngabláar myndir á Adult Channel.
Sammála er ég Ólínu um það að ekki er boðlegt að knattlýsingar fyrir Íslendinga fari fram á ensku. Hún lætur hins vegar vera að kvarta undan því að Fullorðinsfræðslurásin, eins og Adult Channel er jafnan nefnd á mínu hreintungu-heimili, er send út ótextuð með öllu. Þetta hefur satt best að segja háð okkur hjónunum talsvert við að átta okkur á atburðarásinni í fullorðinsfræðslunni.
Ólína kallar forsvarsmenn Símans klámhunda. Það er hennar prívat mat en ég mundi nú frekar kalla þá réttnefnda málníðinga og er það engin afsökun að halda því fram að táknmál ástarinnar sé hvort sem er alls staðar eins. Það er nefnilega rangt. Meira að segja enskar sælustunur hljóma öðruvísi en íslenskar og hafa hljóðfræðingar sannað það vísindalega með ítarlegum samanburðar rannsóknum. Þarna gildir sem sagt hið sama og með jarmið í íslensku sauðkindinni, sem er einstakt í sinni röð. Mér finnst það því einboðin og sjálfsögð krafa að Síminn geri hér tafarlausa bragarbót á og láti tal- og stunusetja fullorðinsfræðslurásina svo notendur fái notið hennar til fullnustu.
Með góðri kveðju,
Jón frá Bisnesi