Fara í efni

SJÁLFBOÐALIÐA VERÐUR Á

Það var sem mig grunaði að annað hvort hefði það verið fatlaður starfsmaður Framsóknarflokksins sem lagt hefði Hummer-jeppanum í stæði fatlaðra við Rimaskóla á dögunum eða, sem náttúrulega var vel til í dæminu, að ungur sjálfboðaliði  – einhver sem ekki kynni á siðareglur flokksins og algert bann hans  við að leggja í stæði fatlaðra,  hefði fallið í þá gryfju að parkera á þennan hátt.  Nú hefur komið á daginn að einmitt hið síðara gerðist eins og fram kemur í sérstakri yfirlýsingu frá ex-bé í Reykjavík. Þar er vísað í “Það leiðinlega atvik” þegar ”ungur sjálfboðaliði á vegum framboðsins uggði ekki að sér og lagði jeppabifreið sem framboðið hefur á leigu í stæði merkt fötluðum. Þetta atvik er harmað og um leið beðist afsökunar á þessu. Slíkt á ekki að geta komið fyrir en því miður átti þetta sér stað og sjálfboðaliðinn er miður sín vegna þessa.”  Auðvitað hljóta menn að sjá í gegnum fingur sér við “unga sjálfboðaliðann” og fráleitt að gera sér frekari rellu út af því. Nú er þetta leiðindaatvik einfaldlega úr sögunni, og gildir þá einu hvort sjálfsboðaliðnn ungi heitir Ingi, Björn, Óskar, Alfreð, Marsibil eða einhverju öðru nafni.
Með kveðju,
Haffi