Fara í efni

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN OG MANNRÉTTINDABROTIN Í ÍRAK

Einar K. Guðfinnson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins á erfitt þessa dagana. Það er mjög skiljanlegt í ljósi þess hlutverks sem hann hefur tekið að sér. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hefur nefnilega tekið á sig þá byrði að verja innrásina í Írak og hernám landsins. Þetta er vissulega engin nýlunda hjá þingflokksformanninum en tilefnið að þessu sinni eru þær umræður sem sprottið hafa um tildrög þess að ríkisstjórn Íslands ákvað að láta setja okkur á lista yfir svokallaðar vígfúsar eða viljugar, “willing” þjóðir. Þetta eru sem kunnugt er þau ríki sem Bandaríkjastjórn hefur ítrekað vísað til sem eindregnustu stuðningsríkja innrásarinnar. Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, hefur þýtt orðið willing sem staðfastur. Finnst það greinilega hljóma flott að vera staðfastur stuðningsmaður stríðsins. Þetta er náttúrlega röng þýðing en látum það liggja á milli hluta.

En eitthvað vefst þetta allt saman fyrir okkar mönnum og upp á síðkastið hafa þeir mikið rætt um að Íslendingar séu herlaus þjóð og komi ekki að stríðinu sem slíku með beinum hætti. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir á heimasíðu sinni 17. jan. m.a.: “Það vita allir að við erum þjóð án hernaðarmáttar og því er augljóst að okkar stuðningur hlaut að felast í þeim þáttum sem lutu að yfirflugsréttindum, mannúðaraðstoð, aðstoð við uppbyggingu og stjórnmálalegum stuðningi ...” 

Það er nefnilega það. Sennilega telur Einar K. Guðfinnsson sig vera að veita stjórnmálalegan stuðning með skrifum sínum. En hvað með hinn manúðlega þátt sem hann víkur að? Skipir hann engu máli? Ekki hef ég orðið var við að ríkisstjórn eða stjórnarmeirihluti á þingi hafi andmælt stríðsglæpum  og pyntingum af hálfu hernámsliðsins Írak. Ef svo hefur verið gert þá hefur það verið gert svo linkulega og í svo miklu framhjáhlaupi að ekki hefur verið eftir því tekið. Og hvar var stuðningur þeirra við íbúa Fallujah, svo dæmi sé tekið, þegar borgaryfirvöldin þar skrifuðu Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og báðu hann um að beita sér af alefli gegn því að hinir viljugu vígamenn hernámsliðsins gerðu árás á borgina. Í bréfi borgaryfirvaldanna voru fordæmd hvers kyns hryðjuverk og neitað öllum tengslum við aðila sem beittu slíkum aðferðum. Ekki fór mikið fyrir þessu ákalli í vestrænum fjölmiðlum.

Mig langar ögn til að staðnæmast við þann kattarþvott íslensku ríkisstjórnarinnar að Íslendingar komi ekki beint að hernaðinum og séu þannig lausir allra mála hvað sjálfan hernaðinn varðar. Þetta minnir á lítinn púka sem hvíslar hvatnigarorðum að ofbeldismanni, hvetur hann til dáða en þorir ekki eða getur ekki sjálfur. Í apríl 2003 var viðtal við Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráherra Íslands og núverandi forsætisráðherra,  þar sem hann sagðist  þakka guði fyrir að hér væri ekki her svo hann þyrfti ekki sjálfur að senda hermenn í stríð en bætti síðan við : "Ég dáist hins vegar að mönnum eins og Tony Blair sem geta tekið slíkar ákvarðanir með yfirveguðum hætti."  

Nú hefur náttúrlega komið í ljós að þessar ákvarðanir voru ekki teknar með yfirveguðum hætti en það mega þeir vita Bush og Blair að sama hvaða fréttir berast frá Írak, að héðan, úr Stjórnarráði Íslands, svo lengi sem núverandi stjórn er við völd, verða gjörðir þeirra aldrei gagnrýndar. Áfram verður hamrað á illverkum Saddams Hussein og í sífellu endurtekin sama spurningin, hvað vilduð þið gera, hvað vilduð þið gera til að bæta hlutskipti Íraka annað en að ráðast inn í landið?
Gefum Einari K. Guðfinnssyni orðið hvað þetta snertir: “En nú er komið að því að svarnir og yfirlýstir andstæðingar innrásarinnar svari hvernig þeir hefðu viljað bregðast við. Áttum við að hafna pólitískum stuðningi, áttum við að mæla með aðgerðarleysi, átti að hafna ósk um yfirflugsréttindi, mannúðaraðstoð eða hjálp við uppbyggingu? Var ekki það að steypa Saddam af stóli, forsenda þess að hægt væri að hefja uppbyggingu. Dettur þeim það í hug, Össuri Skarphéðinssyni og Ögmundi Jónassyni að endurreisnarverk Í Írak hefði verið mögulegt með illþýðið Saddam við völd? Eða hvernig er það; trúðu þeir því að hafið yrði mannúðar - og uppbyggingarstarf, undir verndarvæng morðsveita harðstjórans?
Þessum spurningum verða þeir að svara og aðrir þeir sem nú ganga hart fram. Það þýðir ekki lengur fyrir þá að reyna að rugla umræðuna. Þeim ber skylda til að upplýsa hana. Meðal annars með því að skýra sjónarmið sín betur en þeir hafa gert í öllum sínum endalausu ræðum og sjónvarpsviðtölum.”

Þessum spurningum hefur margoft verið svarað í blaðagreinum, í fjölmiðlaumræðu, í ræðum á Alþingi og í þingmálum sem þar hafa verið flutt. Við vildum aflétta viðskiptabanninu á Írak sem að mati sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna murkaði lífið úr einni milljón barna og eyðilagði allt stoðkerfi landsins. Að mati þeirra þurfti um þrjátíu milljarða Bandaríkjadala árlega til að reisa landið við eftir fyrra Flóastríðið. Írakar fengu hins vegasr aðeins að selja olíu fyrir lítið brot af þessari upphæð þar til undir lok tíunda áratugarins að dregið var úr viðskiptabanninu því það þótti sýnt að það stæðist ekki Genfarsáttmálann og viðauka hans.

Ég skal fúslega játa það að ekki kann ég ráð við öllum heimsins vandamálum og vissulega vil ég berjast gegn ofbeldismönnum, hvort sem þeir heita Saddam Hussein eða eittvað annað. Ég er til dæmis nýkominn frá Palestínu og hef orðið vitni að hryllilegu ofbeldi sem Ísraelar beita palestínsku þjóðina. Ísraelar eru að öllum líkindum með kjarnorkuvopn undir höndum, auk annarra gereyðingarvopna. Engin þjóð hefur brotið gegn eins mörgum samþykktum Sameinuðu þjóðanna eins og Ísraelar. Ég hlusta af athygli á þá sem eru óþreytandi að finna leiðir til lausnar vandanum og til varanlegrar sáttar fyrir botni Miðjarðarhafs. Til eru þeir sem einfaldlega vilja þurrka Ísrael út eða gera loftárás á Tel Aviv. Ekki er ég í þeim hópi. Er þar með sagt að ég telji mig hafa lausnina á reiðum höndum? Svo er ekki. Ég veit það líka að sú leið sem ég tel að þurfi að fara er síður en svo auðfarin.

Gæti nú ekki verið að þetta eigi víðar við? Það er mikill barnaskapur að ímynda sér að þeir sem kunna engar aðrar lausnir en hernaðarofbeldi séu þeir einu sem hlusta beri á. Ég er vissulega þeirrar skoðunar að nauðsynlegt geti verið að beita valdi til að brjóta niður ofbeldisvald. Þetta er hins vegar afar vandmeðfarið enda hefur hinn siðaðri hluti mannkynsins lagt sig í líma við að smíða alþjóðlegar samþykktir um aðferðafræðina og til verndar mannréttindum við slíkar aðstæður. Er það ekki umhugsunarvert að Bandaríkjastjórn skuli nú hafna aðild að slíkum samþykktum og má þar vísa í nýlegt dæmi um hinn alþjóðlega stríðsglæpadómstól - að ekki sé nú minnst á afstöðu Bandaríkjastjórnar til Sameinuðu þjóðanna almennt?

Ég tel að á okkur hvíli siðferðileg og pólitísk krafa að láta manréttindabrot ekki liggja í þagnargildi. Ekki heldur þegar þeir Bush,  Blair og leppar þeirra í Írak, Allawi og félagar eiga í hlut. Ég held að það væri hollt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að leiða ögn að þessu hugann. Er ekki eitthvað að þegar fjölmennur stjórnmálaflokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn er farinn að verja ofbeldi og mannréttindabrot eins og hann nú gerir í Írak? Nú vill svo til að ég veit að Einar K. Guðfinnsson er velviljaður maður. Getur verið að hann sé hér kominn út á hálan ís? Ég tel svo vera.

 

Sjá grein Einars K. Guðfinnssonar: Hér

Sjá tilvitnun í DV frá apríl 2003: Hér

Sjá nýlega grein um afstöðu ríkisstjórnarinnar : Hér