Fara í efni

SJÁUMST Á FUNDI MÁLFRELSISFÉLAGSINS UM MÁL MÁLANNA

Á laugardag klukkan tvö efnir félagið Málfrelsi og ritmiðillinn www.krossgotur.is til fundar um framtíð fréttamennsku. Fundurinn er haldinn í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og hefst hann klukkan tvö og lýkur eigi síðar en klukkan fjögur. Allir eru velkomnir.

Á fundinum fjallar Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, um þá lærdóma sem draga megi af áralangri baráttu til að frelsa upphafsmann fréttveitunnar, Julian Assange, úr fangelsi í Bretlandi. Þar hafði honum verið haldið síðan vorið 2019 án ákæru, hvað þá dóms! Þess var beðið hvort bresk stjórnvöld myndu treysta sér til þess að verða við kröfu Bandaríkjastjórnar um framsal Assange til Bandaríkjanna þar sem hans biðu réttarhöld og ákærur um margfalt ævilangt fangelsi fyrir að koma á framfæri fréttum að stríðsglæpum Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra.
Á endanum hafði Wikileaks betur og er Assange nú frjáls maður. En hvað þýðir þetta mál fyrir fréttamennsku þegar til framtíðar er litið því engum vafa er undirorpið að ákærurnar á hendur Assange voru settar fram til þess að þagga niður í honum og öllum þeim sem dirfðust að fara að dæmi hans.
Á fundinum mun Tjörvi Schiöth, sagnfræðingur, fjalla um gagnrýna fréttamennsku á sviði alþjóðamála og Birgir Guðmundsson, prófessor, veltir upp ýmsu sem til framtíðar horfir í þessu máli málanna: Málfrelsi og miðlun upplýsinga.
Utan um fundinn heldur formaður Málfrelsis, Svala Magnea Ásdísardóttir en fundarstjórnina mun ég annast.

-------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.