Fara í efni

Skammsýn framtíðarsýn - stefna Framsóknarflokksins í atvinnumálum

Birtist í Mbl. 26.02. 2003
Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram tillögur sem formaður flokksins segir að veikja muni stöðu ríkissjóðs um 15 milljarða. Stóriðjustefna í atvinnumálum muni hins vegar gefa svo mikið í aðra hönd að engu sé að kvíða. Grundvöllur sé að skapast fyrir þjóðarsátt um að gera stóriðjustefnu Framsóknarflokksins að hornsteini íslenska velferðarkerfisins. Sýn formanns Framsóknarflokksins á þungaiðnað sem akkeri íslenskrar atvinnustefnu fór ekki á milli mála á nýafstöðnu þingi flokksins. 

Þjóðarsátt um þungaiðnað? 

Þetta sagði Halldór Ásgrímsson við upphaf flokksþings Framsóknarflokksins: "Áætlanir gera ráð fyrir að framleiðslustigið í hagkerfinu verði að minnsta kosti 2% hærra á komandi kjörtímabili en annars hefði orðið vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, ekki síst vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi og byggingar Kárahnjúkavirkjunar. Í þessu felst að svigrúm ríkissjóðs verði samanlagt á kjörtímabilinu um 20-25 milljörðum meira en ella og sveitarfélaganna fimm milljörðum meira en annars hefði orðið. Þá má ætla að afkastageta þjóðarbúsins verði 4-5 prósentustigum meiri í lok næsta kjörtímabils en án þessara aðgerða. Ég tel augljóst að almenningur í landinu eigi að njóta stærsta hluta þessara auknu tekna, en mikill meirihluti hans hefur fylkt sér um þessa atvinnustefnu og áttað sig á hinu mikilvæga samhengi hlutanna. Ég tel vera kominn grundvöll fyrir þjóðarsátt  um þá atvinnustefnu sem er hornsteinn íslenska velferðarkerfisins. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef við styðjum við bakið á þessari atvinnustefnu og njótum uppbyggingar stóriðjunnar á Austurlandi og Grundartanga skapast ekki einvörðungu á þriðja þúsund nýrra starfa, heldur skapast einnig skilyrði til mestu skattalækkana um langt skeið."

Nokkuð þykir mér stórt tekið upp í sig að halda því fram að þjóðarsátt sé að skapast um stóriðju sem hornstein íslenska velferðarkerfisins. Þvert á móti er mjög harkalega tekist á um þessa stefnu sem mörgum þykir bæði óskynsamleg og afturhaldssöm. Lítum á fjögur atriði. 

Þjóðarbuddunni í óhag

Í fyrsta lagi er stóriðjustefna eins og á er haldið af hálfu stjórnvalda óhemju kostnaðarsöm og óhagkvæm leið til atvinnusköpunar. Mönnum reiknast til að hvert starf sem stofnað er til með stóriðju á Austurlandi kosti á bilinu 300 til 500 milljónir króna. Fjárfestingunni væri betur varið með því að skapa atvinnurekstri hagstæð skilyrði með vandaðri og skilvirkri almannaþjónustu og aðgangi að ódýru fjármagni. Hér kæmu auk fjárfestingasjóða til álita skattaívilnanir til fyrirtækja sem eru að festa sig í sessi. Þá ber að hafa í huga að vextir yrðu lægri hér á landi án stóriðju. Allar aðgerðir hins opinbera eiga að miða að því að efla þann sköpunarkraft sem býr í atvinnulífinu. Með því að treysta innviði samfélagsins mun atvinnulífið dafna, þau fyrirtæki sem fyrir eru eflast og ný koma til sögunnar eins og gerst hefur á síðustu áratugum. Össur, Bakkavör, 3X-Stál, Marel, fyrirtæki í lyfjaiðnaði, bókaútgáfu, hljómlist, ferðaiðnaði og þannig mætti áfram telja, urðu ekki til vegna miðstýrðra ákvarðana heldur vegna þess að hugmyndir kviknuðu með mönnum sem hrintu þeim í framkvæmd. 

Með þungaiðnaðarstefnu Framsóknarflokksins er öllu á hvolf snúið. Í stað þess að stjórnvöld einbeiti sér að því að byggja upp velferðar- og almannaþjónustukerfið og skapi atvinnurekstrinum þannig heppileg skilyrði þá hefur flokkurinn fylgt þeirri stefnu að hafa miðstýrð afskipti af sjálfri atvinnustarfseminni á sama tíma og dregið er úr opinberri aðkomu að almannaþjónustunni, m.a. með einkavæðingu. Fjármálastjóri Landsvirkjunar hefur sagt að ef ekki yrði ráðist í þessar fjárfestingar væri hægt að greiða upp skuldir Landsvirkjunar á fimmtán árum. Væri það ekki heillaráð og nota svo svigrúmið til að lækka raforkuverð í landinu? Væri það ekki ódýr leið til að draga úr tilkostnaði heimila og atvinnufyrirtækja og skapa þeim þannig betri rekstrarskilyrði?   Byggt á lítt ígrunduðum ágiskunum

Í öðru lagi er á það að líta að stóriðjufjárfestingar ríkisstjórnarinnar skapa almannasjóðum og efnahagskerfinu almennt minni tekjur en aðrir valkostir. Við umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur komið fram að engin tilraun hefur verið gerð af hálfu efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar til að meta hvert vinnsluvirði stóriðjunnar er, hve miklu hún muni skila í þjóðarbúið. Framangreindar staðhæfingar Halldórs Ágrímssonar byggja ekki á neinum haldgóðum útreikningum. Því er ósvarað hvernig sú samsetning efnahagslífsins sem Framsóknarflokkurinn boðar kemur út varðandi tekjustreymi skatta í ríkissjóð og sveitarsjóði borið saman við þá samsetningu atvinnulífs sem byggir á fleiri en smærri fyrirtækjum. Hvorki Seðlabankinn né fjármálaráðuneytið hafa treyst sér til að meta hvaða langtímaáhrif breytt samsetning efnahagslífsins – þar sem þungaiðnaður í erlendri eign vegur sífellt meira í efnahagsstarfseminni – hefði á þjóðarbúskapinn í heild og þá sérstaklega á tekjustreymi í opnibera sjóði.

Jákvæð þjóðhagsleg áhrif af álveri Alcoa og virkjun vegna þess eru reyndar líkleg til að vera á annan veg en stjórnvöld vilja vera láta. Samkvæmt athugun Þjóðhagsstofnunar, sem miðaðist við rekstur Reyðaráls, hefði þjóðarframleiðsla aukist um aðeins 0,7% vegna reksturs álvers. Samkvæmt athugun Þorsteins Siglaugssonar hagfræðings myndu áhrifin af álveri Alcoa líklega ekki nema meiru en 2,3 milljörðum króna, eða um 0,6% af þjóðartekjum árið 2001. Þetta samsvarar árshagnaði tveggja stórra fyrirtækja í góðu árferði. Þá má lítið út af bera til að hin jákvæðu áhrif hverfi og verði jafnvel neikvæð. Sem dæmi má nefna að fari stofnkostnaður virkjunar 30% fram úr áætlun, sem athuganir benda til að gætu orðið, helmingast áhrifin og hreint núvirði fjárfestingar í Kárahnjúkavirkjun yrði 27,2 milljarðar króna í mínus.

Ruðningsáhrif

Í þriðja lagi þrengir stóriðjustefnan að öðrum atvinnurekstri og dregur úr mætti hans til útþenslu og atvinnusköpunar. Þegar arðsemin er metin hefur annars vegar verið rætt um það hvort hugsanlega verði bókhaldslegt tap á verkefninu og hins vegar hvort bókhaldslegur ávinningur, ef á annað borð verður um hann að ræða, væri virði þeirrar áhættu sem þjóðin tekst á hendur. Í þessu sambandi hefur einnig verið rætt um ruðningsáhrif í efnahagslífinu. Hagfræðingar hafa varað við því að fyrirtækjum sem standa veikt að vígi, eins og við á um mörg sprotafyrirtæki, yrði hreinlega rutt úr vegi. Þeir hafa bent á að skattastyrkir til Landsvirkjunar og opinber ábyrgð á lánum geri það að verkum að leiða megi sterkar líkur að því að þau fyrirtæki sem rutt yrði burt í séu raun arðsamari en virkjun og álver. 

Í þessu sambandi hefur einnig verið bent á vaxtahækkanir. Ítrekað hefur verið fullyrt af hálfu fulltrúa Seðlabanka Íslands að raunvextir þurfi að verða a.m.k. 2% hærri en ella vegna fyrirhugaðra stóriðjuframkvæmda. Enginn vafi leikur á að þetta mun hafa veruleg áhrif í efnahagslífinu, þrengja kost fyrirtækja í vexti og hag heimilanna. Hvers vegna myndu vextir hækka? Annars vegar vegna þess að aukin eftirspurn eftir fjármagni mun einfaldlega hækka á því verðið. Hins vegar munu vextir verða hækkaðir sem stýritæki til að slá á eftirspurn: til að koma í veg fyrir að heimili og fyrirtæki fjárfesti. Með öðrum orðum, vextir verða hækkaðir beinlínis til að koma í veg fyrir að fyrirtækin í landinu færi út kvíarnar. Er það vænleg leið til atvinnusköpunar? Þá hefur verið bent á að ruðningsáhrif virkjunar á ferðaþjónustu geti vel orðið mjög neikvæð þegar til lengri tíma er litið. Þriggja milljarða samdráttur í vinnsluvirði frá ferðaþjónustunni myndi gera þjóðhagsleg áhrif virkjunar og álvers neikvæð um 700 milljónir á ári.

Þungaiðnaður dregur úr stöðugleika

Varðandi þá framtíðarsýn að gera þungaiðnað að kjölfestunni í íslensku atvinnulífi ber í fjórða lagi að taka til greina alvarleg varnaðarorð hagfræðinga. Hér vil ég vísa sérstaklega í grein sem þeir Axel Hall og Ásgeir Jónsson birtu í Viðskiptablaðinu í desember árið 2001. Þeir skoðuðu óstöðugleikaskeið í efnahagslífinu á síðustu áratugum og mátuðu þau inn í framtíðarsýn Halldórs Ásgrímssonar þar sem álframleiðsla er orðin meira en þriðjungur efnahagsstarfseminnar í landinu. Niðurstaðan varð sú að "að aukið vægi áls hefði ekki skapað mótvægi við sveiflur í öðrum útflutningi, heldur í flestum tilvikum magnað upp þann óstöðugleika sem var fyrir hendi. Þetta á t.d. við uppsveifluna 1985-88 en samanlögð aukning vöruútflutningstekna á þessu tímabili hefði verið mun meiri ef ál hefði haft meira vægi. Aftur á móti hefði niðursveiflan 1990-94 orðið mun krappari af völdum áls, en samdráttur útflutningstekna á því tímabili hefði orðið meiri en ella." Greinarhöfundar benda á að oft hafi menn viðrað áhyggjur vegna einhæfni atvinnulífs á Íslandi sem hvílt hafi á sjávarútvegi. "Þessi einsleitni útflutnings og sveiflur í sjávarútvegi hafa af mörgum verið talin helsta uppspretta óstöðugleika í efnahagslífinu." Þess vegna, segja þeir Axel og Ásgeir, hefur það verið yfirlýst forgangsverkefni að auka fjölbreytni í útflutningi. "Hins vegar má velta því fyrir sér hvort aukin stóriðja muni ávallt skila þessum tilætlaða árangri, sérstaklega ef hún ber öll að sama brunni og býr við rekstraróvissu sem jafnvel er meiri en þekkist í sjávarútvegi. Sú spurning blasir því við hvort Íslendingar séu að endurtaka leik fortíðar með því að leggja of mikið undir á eina atvinnugrein. Þetta er áhættan við álið." 

Þetta er ein af þeim hættum sem Framsóknarflokkurinn býður heim með þungaiðnaðaráformum sínum. Um þau hefur engin þjóðarsátt skapast og mun ekki gerast. Það getur aldrei orðið nein sátt um stefnu sem er í hróplegri andstöðu við nánast allt sem skynsemin boðar. Og er þá ekki minnst á það sem mestu máli skiptir – þau stórkostlegu náttúruspjöll sem stefna Framsóknarflokksins hefur í för með sér.