SKATTALÆKKUN Í BOÐI ÞEIRRA - VARLA
Talsmenn stjórnmálaflokkanna eru nú víða hangandi uppi. Þeir Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson eru þessa dagana á strætóskýlum víða á höfðuborgarsvæðinu, brosandi á bláum plakötum að lofa skattalækkunum. Þannig vill Sjálfstæðisflokkurinn að þeir hangi uppi.
Ekki eru þeir félagarnir þó mjög sannfærandi. Að minnsta kosti ekki gagnvart þeim sem vita betur. Og það gera margir skattgreiðendur. Þeir vita að á strætóskýlunum eru tvímenningarnir og líka Áslaug Arna og Þórdís Kolbrún og öll hin að lofa skattalækunum og yndilsegu mannlífi á kostnað ríkissjóðs. Þau borga ekki krónu sjálf. Það eru skattgreiðendur sem borga fyrir öll brosandi plakötin.
Það fyrsta sem Alþingi gerði þegar það kom saman í byrjun undangengis kjörtímabils var að samþykkja nokkur hundruð milljóna króna hækkun til stjórnmálaflokkanna. Þarna varð full eindrægni með þingmönnum, allir sammála.
Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur flokka á þingi og því fær hann flestar krónur frá skattgreiðendum í sinn hlut. Það gerði hann fyrir og eftir hækkun. Fyrir vikið hagnaðist hann mest á þeirri ákvörðun Alþingis um árið að seilast lengra ofan í vasa almennings. Árið 2015 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 93.8 milljónir frá skattgreiðendum en fær á þessu ári 186 milljónir. Það er hækkun um allmörg strætóskýli. Svo geta menn reiknað hve mikið má auglýsa fyrir það sem safnast á heilu kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn klifrar í áttina að milljarði.
Nú spyr ég í mestu vinsemd eða eigum við að segja til að hófs sé gætt, í nokkurri vinsemd. Hvernig væri að orða auglýsinguna aðeins öðru vísi en þó þannig að hún segi eitthvað svipað þannig að tilganginum verði náð? Til að komast hjá að minna á hver borgi brúsann væri rétt að sleppa öllu tali um skatta. Hvernig væri að segja að Bjarni Ben, Guðlaugur Þór, Áslaug Arna og Þórdís Kolbrún séu frábær og því rétt að kjósa þau? Þetta er einfalt og óáreitið. Þá yrði niðurstaðan sú að segja á strætóstöðvunum og húsveggjum efitr atvikum, stutt og laggott: Við erum æðisleg. Og svo í hógværri stafagerð eins og er reyndar á skattalækkunarplakötunum, x-d.
Ég held að þetta geti ekki klikkað og ef að líkum lætur, svínvirki!