Fara í efni

SKATTHÆKKUNARMENN ÍSLANDS

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 28/29.10.17.
Skattar sem lagðir eru á okkur taka á sig margar myndir.
Talað er um almenna skatta og er þá átt við greiðslur í opinbera sjóði til að fjármagna sameiginlegan rekstur þjóðfélagsins. Þessir skattar geta verið með ýmsu móti, þrepaskiptir og með skattleysismörkum.
Svo eru það óbeinu skattarnir á borð við virðisaukaskattinn, sem tengjast þá einstaklingsbundinni neyslu.
Að lokum eru það álögur sem ganga lengra í þessa átt, til dæmis gjöld í heilbrigðisþjónustunni þar sem sjúklingurinn borgar beint úr eigin vasa eða þá vegfarandi fyrir að nýta samgöngukerfið.

Öll þessi mismunandi gjaldtaka á það sammerkt að fjármagna smíði og rekstur innviða samfélagsins.

Almennt séð hafa hægri menn verið hlynntir því að tengja skattheimtuna notkun, „þeir borga sem njóta", en vinstri menn hafa viljað nýta skattkerfið til tekjujöfnunar.

Inn í skattaumræðuna hafa síðan blandast hugmyndir manna um að láta einkaaðila um tiltekna þætti samfélagsþjónustunnar. Þegar hugmyndir um einkaframkvæmd fóru fyrir alvöru að ryðja sér til rúms hér á landi undir aldarlok, var áhersla hægri sinnaðra stjórnmálamanna á að fjármagna bæri samfélagsþjónustuna, hvort sem hún væri í einkaframkvæmd eða reksturinn algerlega á hendi hins opinbera, með notendasköttum.

Eftirfarandi er úr bæklingi fjármálaráðherra frá árinu 1998: „Einkaframkvæmd má flokka í mismunandi stig eftir því hversu mikil afskipti ríkisins eru. Í fyrsta lagi eru fjárhagslega sjálfstæð verkefni. Í öðru lagi að öll þjónusta er seld ríkinu og í þriðja lagi að ríkið greiði fyrir hluta kostnaðar við verkefni en rekstraraðila látið eftir að afla tekna til að standa undir rekstrinum að öðru leyti. Leggja ber áherslu á að sem stærstur hluti tekna rekstraraðila sé fenginn með notendagjöldum..."

Þessu var andæft af miklum krafti af hálfu félagslegra afla og leið ekki á löngu þar til hægri menn breyttu afstöðu sinni nokkuð, einkum gagnvart heilbrigðiskerfinu. Það ætti að fjármagna algerlega af hinu opinbera, sögðu þeir nú,  en einkaaðilum mætti hins vegar fela tiltekna rekstrarþætti. En þrátt fyrir þverpólitískar viljayfirlýsingar í þessa veru, fjármagna sjúklingar um fimmtung af kostnaði við heilbrigðiskerfið úr eigin vasa og gleymum því ekki að enn er deilt um rekstrarformin og réttinn til arðtöku.

Þótt vilji sé til þess að fjármagna heilbrigðiskerfið sameiginlega, blómstra hugmyndir um að hefja stórsókn ofan í pyngju vegfarenda. Úr Stjórnarráðinu og frá hendi (sumra) sveitarfélaga er hamast við að telja okkur trú um að ágætt vegakerfi okkar sé að niðurlotum komið. Í stað þess að horfa til jafnrar og stöðugrar styrkingar kerfisins sem vissulega er þörf, er okkur sagt að fáum við ekki margbreiða vegi með slaufum og öllu tilheyrandi þegar í stað, þá sé voðinn vís. Við þessu gleypa undarlega margir gagnrýnislaust.

Og verktakafyrirtækin kynda undir enda ekki til lítils að vinna, að fá í senn pening úr ríkis- og sveitarsjóðum og aðgang að pyngjum okkar vegfarenda. Þar með værum við að borga meira í fjármögnun vegakerfisins - látum arðgreiðslur til fjárfesta liggja á milli hluta en einnig þær værum við að fjármagna. En hvernig? Með hærri álögum að sjálfsögðu! Og þetta er sagt beint út, auknar álögur gefa færi á frekari framkvæmdum. Það gefur náttúrlega auga leið.

En ég er ekki viss um að allir sem tala þessu máli vilji gangast við því að vera hinir eiginlegu skatthækkunarmenn Íslands. En það eru þeir engu að síður.