Skert sjálfsmat og "valinkunnir lögfræðingar"
Davíð Oddsson, forsætisráðherra, lét svo lítið að koma í Kastljós Ríkissjónvarpsins í gærkvöld – einn. Að sjálfsögðu, annað hefði verið stílbrot. Umræðuefnið var fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla. Ekki þorir Sjálfstæðisflokkurinn lengur að standa gegn því að hún fari fram. Merkilegt hve stjórnarmeirihlutinn er banginn við þá þjóð sem kaus hann til valda. Það er engu líkara en ráðamenn verði skelfingu lostnir ef þjóðin á að fá að segja sína meiningu, beint og milliliðalaust. Nú er þetta sama þjóðin og þeir hitta í þingkosningum á fjögurra ára fresti. Einn munur er að vísu á. Þá eru þeir búnir að láta auglýsingastofur sminka sig og fegra vikum saman með tugmilljóna tilkostnaði. Þá virðist sjálfsöryggið skárra. Verra þegar vantar farðann.
Davíð Oddsson sagði í Kastljósinu að þeir Halldór formaður Framsóknar væru búnir að ræða saman. Þeir væru sammála. Og í morgun heyrðum við svo í Hjálmari, þingflokksformanni Framsóknar. Hann sagði að þingflokkurinn stæði einhuga að baki Halldóri. Þeir Davíð og Halldór ætluðu nú að ræða við „valinkunna lögrfæðinga“. Fyrr væri ekki ástæða til að kalla Alþingi saman.
Niðurlæging Framsóknar er semsé orðin algjör. Allar óskir stjórnarandstöðu um breiða aðkomu að málinu hundsaðar. Foringjarnir eiga að ráða. Annarra er að hlýða – og það kunna Framsóknarmenn! Og varðandi hina „valinkunnu lögfræðinga“ er rétt að spyrja, hvers konar sjálfsmat þetta eiginlega sé hjá stjórnarþingmönnum? Geta menn ekki hugsað heila hugsun án lögfræðinga? Og eru viðfangsefnin virkilega lögfræðilegs eðlis, eru þau ekki pólitísk í eðli sínu? „Á einfaldur meirihluti að gilda? Á að krefjast tiltekins fjölda til að atkvæðagreiðsla skoðist gild?“ Eru það ekki spurningar af þessu tagi sem kæmu til álita ef menn vildu setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslu? Sjálfum finnst mér málið hins vegar afar einfalt. Samkvæmt stjórnarskrá á að bera tiltekin lög undir þjóðina til samþykkis eða synjunar. Annað hvort hafnar meirihluti þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni málinu eða samþykkir það. Þetta treysti ég mér til að segja án þess að fá lagadeild Háskóla Íslands eða valinkunna lögfræðinga til að stimpla þetta sem löggilda skoðun.