Fara í efni

SKILABOÐ SEM NATÓ HLÝTUR AÐ TAKA TIL SÍN

Iðulega eru flóttamenn gagnrýndir fyrir að banka upp á hjá Evrópuþjóðum og biðja um hæli og landvist. Þá vill gleymast að þetta er ekki þeirra óskastaða heldur hlutskipti sem þeim hefur verið skapað.

Og hverjir skyldu nú hafa verið þar að verki? Ekki þarf að lesa sig lengi til í síðari tíma sögu Mið-Austurlanda og Norður-Afríku til að skilja að olíu- og hráefnagráðug Vesturlönd hafa verið stórtækust í að gera fólki lífið svo skelfilegt og illviðráðanlegt að landflótti hefur orðið eina úrræðið.

Í síðustu viku hvatti Trump okkur, það er að segja NATÓ ríkin til að fylkja sér að baki honum í Mið-Austurlöndum. Jens Stoltenberg aðalaframkvæmdastjóri NATÓ, tók vel í það fyrir okkar hönd auk þess sem NATÓ ríkin hafa lagt blessun sína yfir morðársina í Bagdad í byrjun árs. Þar með líka “við”.

Þess vegna er orðum kvennanna tveggja á myndinni ekkert síður beint til íslenskra stjórnvalda en stjórnvalda annarra ríkja sem bera ábyrgð á hernaðarofbeldi og yfirgangi í Mið-Austurlöndum: Ef þið viljið ekki taka á móti flóttamönnum, hættið þá að reka fólk á flótta.