Skin og skúrir hjá Framsókn
Hjá framsóknarmönnum skiptast á skin og skúrir. Tveir mjög hamingjusamir framsóknarmenn hafa birst á sjónvarpsskjánum á undanförnum dögum. Annar er formaður flokksins, Halldór Ásgrímsson, sem sagðist vera "stoltur og glaður" yfir efnasprengjufundi í Írak, enda "hefði hann alltaf vitað" að gereyðingarvopn væri að finna í landinu. Hinn hamingjusami framsóknarmaðurinn er Jónína Bjartmarz. Ég sá ekki betur en ráðherraglampi væri í augum hennar þegar hún birtist á sjónvarpsskjánum í kvöld. Þingmaður sem blessar í bak og fyrir niðurskurð á Landspítala - Háskólasjúkrahúsi og segir fund í heilbrigðisnefnd Alþingis um þetta efni hafa verið einstaklega hamingjuríkan, hlýtur að vera álitlegur kandidat í ráðherrastól á vegum Framsóknarflokksins. Niðurskurðurinn og uppsagnir á þriðja hundrað starfsmanna mun ekkert skerða þjónustuna, sagði Jónína. Annað sagði stjórnarandstaðan og vísa ég þar í mjög góða grein eftir Þuríði Backman í Morgunblaðinu í dag og viðtal við Margréti Frímannsdóttur í hljóðvakafjölmiðlum í kvöld.
En af þessu tilefni vil ég segja að viðbrögð Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra voru mér meira að skapi þegar hann hitti fulltrúa samtaka launafólks að máli í dag af sama tilefni. Jóni Kristjánssyni var ekki skemmt enda er honum umhugað að vernda samfélagslega rekna heilbrigðisþjónustu. Um það er ég sannfærður. Hann kvaðst myndu kynna mótmæli verkalýðshreyfingarinnar á ríkisstjórnarfundi. Hann lofaði engu um árangur en greinilegt var að hann er ekki sáttur við þessar aðgerðir. En Framsóknarflokkurinn er ekki samstiga í þessu máli. Hluti hans er á bandi markaðssinnanna í Sjálfstæðisflokknum.
En talandi um hamingju framsóknarmanna, þá sló heldur í bakseglin hjá Halldóri Ásgrímssyni í dag því Moggi birti baksíðufrétt undir fyrirsögninni "Sprengjusérfræðingum létt". Haft var eftir íslenskum sprengjusérfæðingi starfandi i Írak að rannsóknir hefðu leitt í ljós að sprengjurnar sem fundust um daginn hefðu sennilega ekki innihaldið efnavopn. "Heimsfrétt" Halldórs, "stoltið" og allt þetta með vitneskjuna sem hann kveðst búa yfir, þarf því aðeins að bíða. Einnig held ég að beinskeitt gagnrýni Edwards Kennedy á stríðsæsingamennina í Hvíta Húsinu í Washington í gærdag, hafi ekki verið Halldóri að skapi. Kennedy beindi spjótum sínum að mönnum sem ráðist hefðu á Írak undir fölsku flaggi, því flaggi að þeir segðust vita fyrir víst að Írak byggi yfir búri gereyðingarvopna, sem heiminum hefði staðið ógn af. Þetta held ég að þeim hafi ekki þótt þægilegt, Bush, Blair, Rumsfeld og siðan fylgifiskunum öllum, þar með Halldóri Ásgrímssyni og þeim félögum öllum í hópi staðfastra stuðningsamnna.