Fara í efni

SKJÁLFTINN KVEÐUR EN BYLTINGIN LIFI

Í sumum mannamyndum er mikið líf. En forsendan er þó alltaf sú að fyrirmyndin sé vel lifandi, hafi útgeislun sem kallað er. Það hafði þessi litli drengur sem myndin er af svo ekki verður um villst. Þetta er Ragnar Stefánsson á unga aldri. Ef vel er að gáð ber myndin sterk karaktereinkenni Ragnars sem fullorðins manns, glettni hans og hlýju.
Fullt var út úr dyrum þegar útför Ragnars Stefánssonar var gerð frá Neskirkju í Reykjavík síðastliðinn miðvikudag.

Í dag birturt nokkur minningarorð mín um Ragnar Stefánsson í Morgunblaðinu og fylgja þau hér á eftir:

Á sólríkum degi fyrir nær ári síðan efndi Ragnar Stefánsson til afmælisveislu þar sem saman voru komnir margir vinir hans og samferðamenn. Vitað var að heilsufari hans hafði hrakað og að hann ætti í baráttu við erfiðan sjúkdóm.
En nú voru áttatíu og fimm ár að baki og blásið til veislu. Ef til vill var það vitneskjan um sjúkdóminn og bágborið heilsufar afmælisbarnsins sem varð til þess að ég hugsaði á þá leið að sennilega liti gamla kempan á þetta sem eins konar blöndu af uppskeruhátíð og kveðjustund.

Þarna sat hann eins og gamall indíánahöfðingi og tók á móti ættboga sínum, vinum og samherjum úr áratugalangri baráttusögu í Fylkingunni, verkalýðsstarfi og margvíslegu grasrótarströggli, þar á meðal rekstri útvarpsstöðvarinnar Rótar sem var stórmerkilegur vettvangur þjóðfélagsumræðu á níunda áratugnum. Gamlir félagar úr BSRB voru mættir en ógleymanlegar eru minningar af Ragnari á verkfallsvöktum í langvinnu verkfalli BSRB haustið 1984. Ekki þótti verra að hafa þennan margfræga baráttumann til staðar hvort sem var við höfnina eða háskólann. Og svo má ekki gleyma samstarfsfólki af jarðskjálftavaktinni en Ragnar var sem kunnugt er einn fremsti vísindamaður á því sviði og birtist um áratugaskeið á skjánum sem slíkur en einnig sem eins konar sálfræðiþerapisti að róa þjóðina þegar landið skalf. Enginn hefur gert það betur en byltingarforinginn enda vísaði nafngiftin Skjálfti í tvær áttir.

Í afmælishófinu gengum við hvert af öðru fyrir þennan höfðingja sem átti það ríkast í sínu fari að hafa barist gegn höfðingjaveldi í hvaða mynd sem það birtist.
Ragnar Stefánsson var baráttumaður hins almenna manns og sérstaklega þeirra sem áttu í vök að verjast gagnvart yfirgangi fjármagns og forstjóravalds.

Sjálfur lýsti hann sér sem byltingarsinnuðum sósíalista og það var hann í reynd, alveg í gegn. Hann lét til sín taka í stjórnmálaflokkum en leit þó svo á að sitt hlutverk væri fyrst og fremst í því fólgið að færa til hin pólitísku landamæri utan flokka. Þetta væri hlutverk Fylkingarinnar, þar sem hann stóð löngum í fararbroddi og barðist gegn auðvaldi og hernaðarhyggju, að gera pólitíkina rauðari og róttækari.

Byltingin byrjar ekki á morgun sagði Ragnar, hún byrjar núna, í þeirri baráttu sem nú fer fram. Byltingarstarfið byrjar með því að smíða innviði sósíalísks samfélags. Þessir innviðir verða síðan sá grunnur sem sósíalisminn verður reistur á. Það sem við getum gert sem aðhyllumst þessa hugsun, sagði hann, er að vera trú sannfæringu okkar. Það var hann sjálfur allt til dauðadags.

Þess vegna var afmælishátíðin í fyrra engin kveðjustund þegar allt kemur til alls. Ragnar Skjálfti var hvorki þá né nú á förum.
Arfleifð hans lifir hann sjálfan og minnir á mikilvægi þess að hræðast það aldrei að standa með málstað sem maður trúir að sé bæði góður og réttlátur.
Ég votta Ingibjörgu og allri fjölskyldu þeirra innilega samúð.


------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.