SKÚRKURINN?
09.04.2009
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn ætla að skila til baka til FL-group og Landsbankans þeim 55 milljónum sem fyrirtækin létu hann fá undir borðið í árslok 2006. Þetta var um svipað leyti og FL-group var að reyna að komast yfir auðlindir í iðrum jarðar á Reykjanesi og á Hellisheiði. Þeir sem öfluðu fjárins hafa án efa unnið sér inn prik á þeim tíma sem féð var reitt fram. Nú eru hinir sömu úthrópaðir skúrkar. Þannig hefur mórallinn breyst. Hann breyttist þegar almenningur fékk innsýn í sukkið.
Ágætir Sjálfstæðismenn! Gert er gert. Tekið var við peningunum á sínum tíma. Það er ekki fyrr en nú þegar málið er upplýst að Sjálfstæðisflokkurinn hrökklast til iðrunar. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að málið verði að kanna til botns. Rétt hjá Ragnheiði. Haft var eftir henni að ekki skipti máli hvaða fyrirtæki eigi hér í hlut. Þetta er hins vegar rangt hjá Ragnheiði. Það skiptir grundvallarmáli hvaða fyrirtæki áttu hér í hlut. Einmitt vegna þess hvaða fyrirtæki áttu í hlut hlýtur rannsóknin að beinast að því hvort um mútugreiðslur var að ræða, hvort verið var að gera tilraun til þess að kaupa stjórnmálaflokk til þess að afhenda bröskurum dýrmætar eignir okkar. Þetta er svo alvarlegur hlutur að mér kæmi ekki á óvart að krafist yrði opinberrar rannsóknar. Sjálfur vil ég bíða og sjá hvernig Sjálfstæðismenn höndla málið sjálfir - með alvöru rannsókn eða pólitískum kattarþvotti.
Hvað hina almennu reglu sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir vísar óbeint til - það er, að eitt skuli yfir öll fyrirtæki ganga - þá hefur hún það til síns máls að upplýsingaskyldan á vissulega að taka til allra fyrirtækja sem látið hafa fé af hendi rakna til stjórnmálaflokka.
Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins reynir nú að beina spjótalögunum frá flokknum með því að taka alla sök á sig. Ég einn vissi, segir hann. Ég hef sterkan grun um að Geir sé þarna að reyna að bjarga félögum sínum í flokknum sem er honum svona kær. Allt of kær.
Það er mín sannfæring að ef frá er skilin pólitísk villukenning Geirs og hve mislagðar hendur honum og samherjum hans í Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu voru hin síðari ár, þá fái það ekki breytt þeirri staðreynd að í mínum huga er Geir H. Haarde heiðarlegur og gegnheill maður. Það hef ég reynt hann af í löngum kynnum þingmannsins/ fjármálaráðherrans annars vegar og formanns Starfsmannafélags Sjónvarps og síðar BSRB/þingmanns hins vegar. Þess vegna þykir mér miður þegar hann leyfir sökudólgum að þvo hendur sínar á sinn kostnað. Sjálfstæðisflokkurinn á að sjá sóma sinn í því að láta raunverulega gerendur axla ábyrgð en nýta sér ekki bak Geirs H. Haarde, fráfarandi formanns, þótt breitt sé.