SKYNSAMLEGAR REGLUR BETRI EN ENGAR?
Sæll Ögmundur.
Varðandi umræðuna um símahleranir og njósnir á árum Kalda stríðsins sem hafa orðið töluverðar á undanförnum vikum er spurning hvort af tvennu illu væri ekki hyggilegt að fremur væru sett skynsamleg lög um þessi mál en engin. Þar þarf að kveða skýrt á um það við hvaða skilyrði megi hlera síma og stunda njósnir og í hvaða tilgangi. Slíkar heimildir þurfa auðvitað að vera mjög þröngar og rökstyðja þyrfti þörfina hverju sinni. Eitt af skilyrðunum er, að öll gögn beri að varðveita og að þau megi vera gerð opinber að tilteknum tíma liðnum, t.d. vegna hagsmuna mannréttinda og auðvitað sagnfræðirannsókna. Sennilega er betra að hafa skynsamar reglur en engar þar sem þá er hætta á að ráðamenn geti sett sínar eigin geðþóttareglur eins og dæmin sanna.
Nú er ljóst að þáverandi dómsmálaráðherra (Bjarni Benediktsson) virðist hafa ákveðið þessar njósnir og væntanlega borið siðferðislega og pólitíska ábyrgð á þeim. Hann hefur væntanlega á eigið einsdæmi lagt lífsreglurnar fyrir viðkomandi embættismenn en að öllu leyti utan við lög og rétt þar sem engar voru reglurnar til að fara eftir. Mér finnst að þetta mikilsverða mál verði að skoða, ekki aðeins með fortíðna í huga, heldur fyrst og fremst hvernig við getum komið í veg fyrir óþarfa löglausa hnýsni og tryggt að mannréttindi haldi þó svo að þetta virðist vera andstæð viðhorf. Um þetta mál má aldrei verða þögn heldur stöðugar umræður því lengi má vænta nýrra gildra og góðra raka í málið. Svo óska eg ykkur alls góðs í þinginu, nú er mikið í húfi að vel takist til og við sendum ríkisstjórnina í frí.
Kveðjur,
Guðjón Jensson, Mosfellsbæ
Heill og sæll.
Ég er sammála þér að þessi mál þarf að skoða mjög gaumgæfilega. Eitt er víst, að upplýsa þarf um hið liðna og koma þarf í veg fyrir njósnir af pólitískum toga í framtíðinni.
Kveðja,
Ögmundur