Skýrir sauðargæran lélega kosningaþátttöku í Evrópusambandsríkjunum?
Í dag lauk í Stokkhólmi þingi EPSU ( Samtaka Launafólks í Almannaþónustu innan Evrópusambadsins og Hins Evrópska Efnahagssvæðis). Ráðstefnan var frjó og gefandi. Flest aðildarsamtökin eru innan Evrópusambandsins og reyna af alefli að hafa áhrif á það sem þar gerist. Ég hef fylgst nokkuð vel með umræðunni innan þessara samtaka um árabil og finn fyrir vaxandi óánægju með tvennt: Annars vegar er það gagnrýnt að Evrópusambandið (ESB) gangi erinda fjármagns- og atvinnurekendavalds og hins vegar er vaxandi kurr út af óheiðarlegum málflutningi.
Varðandi fyrra atriðið eru augljósust dæmin um hvernig ESB hefur komið fram í viðræðum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um GATS samningana og nú síðast hvernig staðið er að smíði nýrrar tilskipunar um þjónustu innan sambandsins.
Varðandi síðara atriðið skal bent á að í báðum þessum málum hefur málflutningurinn verið óheiðarlegur. Í upphafi EPSU þingsins hélt Evrópuþingmaðurinn Philippe Herzog (sem barist hefur fyrir velferðarsjónarmiðum innan ESB) erindi og sagði hann m.a. frá umræðufundi með Fritz Bolkenstein, sem verkstýrir málum fyrir hönd ESB um nýja tilskipun um þjónustu. Herzog sagðist hafa spurt Bolkenstein hvort tilskipunin um markaðsvæðingu á þjónustusviði kæmi til með að ná til velferðarþjónustunnar. Á fundinum kvað Bolkenstein svo ekki vera. Að fundinum loknum hefði hann hins vegar sent aðstoðarmenn sína til Herzogs til að segja honum að hið rétta væri að þegar upp yrði staðið myndi tilskipunin ná til velferðarþjónustunnar.
Þetta kalla ég að íklæðast sauðagæru. Það er talað hunangsröddu til allra hópa, allt er sagt vera nákvæmlega sniðið að þeirra hagsmunum og óskum. Á fundum með verkalýðshreyfingunni hef ég margoft hlustað á þennan fagurgala. Allt annað hefur síðan komið á daginn.
Gæti þessi óheiðarleiki að einhverju leyti skýrt hvers vegna evrópskir kjósendur hirða ekki um að nýta rétt sinn til að kjósa til þings Evrópusambandsins; að sambandið sé að missa tiltrú vegna óheiðarlegra vinnubragða? Stöðugt dregur úr áhuganum.
Samkvæmt frétt í Svenska Dagbladet var kosningaþátttakan í kosningunum 1994 56,8% að meðaltali í Evrópusambandsríkjunum. Í kosningum sem fram fóru 1999 var þátttakan komin í 49,8% og nú var hún 44,2%!
Í fyrstu kosningunum til þingsins, árið 1979, var þátttakan, samkvæmt blaðinu, 65%! Léleg þátttaka var núna bæði í "gömlu" og "nýju" aðildarríkjunum. Í Svíþjóð þar sem hefð er fyrir mikilli þátttöku mættu aðeins 37,2% á kjörstað. Það er greinilegt að almennt er ekki litið á Evrópusambandið sem vettvang lýðræðisins.