SNÚUM VÖRN Í SÓKN
04.09.2009
Fundur með forstjórum heilbrigðisstofnana landsins í gær um fjárlög komandi árs var að mínum dómi góður. Heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir miklum niðurskurði ofan á þann gríðarlega samdrátt sem þegar er orðinn á þessu ári. Aldrei í sögunni hefur eins mikið verið lagt á stjórnendur og starfsfólk í heilbrigðiskerfinu íslenska og með niðurskurðinum nú. Ekki svo að skilja að fyrr á tíð hafi heilbrigðisstarfsfólk ekki búið við miklu erfiðari aðstæður en nú. Það sem gerir hins vegar stöðuna verri núna er krafan um að vinda ofan af og draga saman. Það er erfitt. Ákvarðanir sem leiða til lakari þjónustu eða uppsagna eru - og eiga að vera - erfiðar. Verkefnið er hins vegar að reyna í lengstu lög að koma í veg fyrir að einmitt þetta gerist.
Nú er það svo að ekkert kerfi er svo gott að það megi ekki bæta það og öll kerfi - þar á meðal heilbrigðiskerfið - eiga að vera í stöðugri endurskoðun. Orðið hagræðing er stundum - og reyndar oftast - notað sem feluorð fyrir niðurskurð. Það á ekki að gera. Ef hins vegar hægt er að snúa niðurskurði yfir í raunverulega hagræðingu þá er markmiði okkar náð. Þetta var meginkjarninn í umræðu við forsvarsmenn heilbrigðisstofnana í gær: Hvernig hægt væri að ná þessu, verja þjónustuna, verja störfin og gera grunvöll heilbrigðiskerfisins sterkari þegar til lerngri tíma er litið - þrátt fyrir minna fjármagn. Þetta er kallað að snúa vörn í sókn.
sJÁ NÁNAR: http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/3094