Sögulaus formaður?
Yfirlýsingar Halldórs Ásgrímssonar formanns Framsóknarflokksins um málsskotsréttinn hafa vakið furðu. Í grein sem Ólína sendir síðunni í dag og ætti að vera öllum sem áhuga hafa á pólitík og þjóðmálum, skyldulesefni eru málin reifuð í sögulegu samhengi. Þar segir m.a.: "Þú rifjar upp Ögmundur áskorun tugþúsunda Íslendinga sem báðu Vigdísi Finnbogadóttur að synja EES lögunum staðfestingar. Það er líka rétt að rifja upp fyrir lesendum ogmundur.is, fyrir Halldóri Ásgrímssyni og sérstaklega fyrir þeim sem búa til rökstuðning fyrir hann í þessu máli og öðrum að vissan um málskotsrétt forseta lýðveldisins er snar þáttur í pólitískri hefð Framsóknarflokksins. Þekktur er rökstuðningur Stefáns Valgeirssonar, alþingismanns, um völd forseta og þjóðaratkvæðagreiðslu í bráðabirgðalagamálinu, sem Halldór Ásgrímsson þekkir vel sem þáverandi varaformaður Framsóknarflokksins. Fjölmargir kjósendur Halldórs Ásgrímssonar á Austurlandi litu á málskotsréttinn sem hluta af lifandi lýðræðishefð þjóðarinnar og kom þetta skýrt og greinilega fram á fundum sem Halldór sótti sjálfur á Austurlandi og í landshlutablöðum eystra í EES málinu. Röksemdirnar voru líka fram settar í dagblaðinu Tímanum, sem mig minnir að þá hafi verið undir ritstjórn Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingaráðherra. Hann man þetta vafalaust. Af framsóknarmönnum fyrri tíðar var Þórarinn Þórarinsson, fyrrverandi alþingismaður, ritstjóri Tímans og náinn ráðgjafi flestra forystumanna Framsóknarflokksins í áratugi, sá sem mesta og besta innsýn hafði í stjórnskipun landsins. Hann þekkti til dæmis stjórnarskrármálið betur en aðrir þálifandi árið 1992 enda ritstjóri Tímans og ráðgjafi flokksforystunnar þegar lýðsveldismálið var afgreitt á Alþingi. Jafnvel Halldór Ásgrímsson yrði að viðurkenna það þótt með því yrði hann að éta ofan í sig suma vitleysuna sem hann hefur látið frá sér fara undanfarið fyrir sína hönd og annarra. Þegar umræður um EES málið stóðu sem hæst steig Þórarinn Þórarinsson fram á ritvöllinn. Hann valdi sér auðvitað Tímann til að koma skoðun sinni á framfæri. Flokksmenn og fjéndur lögðu við hlustir þegar hinn aldni, þegar hinn vísi maður, tjáði sig um samtímann í ljósi sinnar miklu reynslu. Þórarinn Þórarinsson skrifaði grein sem bar heitið “Þjóðin er æðri Alþingi”. Í þeirri grein fjallar þessi fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar um lýðveldisatkvæðagreiðsluna 1944 og tillögur sem fyrir lágu um lýðveldisstofnunina. Síðan segir…"
Ég vísa lesendum að fara beint í grein Ólínu og lesa áfram: sjá hér