Sóltúni óskað velfarnaðar
Birtist í Mbl
Undirritaður hefur nokkuð gagnrýnt ríkisvaldið fyrir þann samning sem á sínum tíma var gerður við Öldung hf. - samheiti fyrir fyrirtækin Aðalverktaka og Securitas - um að reisa og reka dvalarheimili fyrir aldraða í Sóltúni 2 í Reykjavík.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar fékkst staðfesting á því að þessi gagnrýni átti við rök að styðjast. Í ljós kom að ríkisvaldið mismunaði stórlega dvalarheimilum aldraðra varðandi fjármögnun. Nánast hvernig sem á málin var litið voru þau kjör sem Öldungi hf. var boðið upp á hagstæðari en hjá öllum öðrum rekstraraðilum sambærilegra dvalarheimila. Og það sem meira er, Ríkisendurskoðun benti á að ein meginástæðan fyrir því að skattborgarinn greiddi Öldungi hf. meira en öðrum rekstraraðilum væri sú að eigendurnir þyrftu að geta hagnast, eða með öðrum orðum, þeir yrðu að geta makað krókinn.
Í umræðu í þjóðfélaginu var haft á orði að það hefði vakað fyrir hinni einkavæðingarglöðu ríkisstjórn að láta Öldungi hf. takast vel upp til að geta sýnt fram á stórkostlegan árangur einkaframtaksins. Þegar fram liðu stundir myndi án efa gleymast að skattpyngjur almennings hefðu verið opnaðar meira en gagnvart öðrum aðilum.
Síðastliðið sumar fengu svo landsmenn forsmekkinn að siðferði eigendanna þegar tilteknir eignaraðilar að Öldungi hf. reyndu að braska með sinn hlut. Þjóðin fékk þarna innsýn í heim fjármálalífsins sem nú rær að því öllum árum að þrengja sér inn í velferðarþjónustuna. Vonandi tekst starfsfólki Sóltúns að halda þessum öflum í skefjum og úthýsa gróðasjónarmiðum úr rekstrarbókhaldinu. Það verður ekki auðvelt verk.
Eftir því sem ég hef fregnað hefur vel tekist til um ráðningu starfsfólks og er engin ástæða til annars en að það hafi fullan trúnað og muni sinna sínum störfum af alúð og elju.
Í sjálfu sér ætti það að vera fagnaðarefni þegar ríkið gerist örlátara í framlögum til dvalarheimila aldraðra. Staðreyndin er sú að framlög til dvalarheimila aldraðra hafa verið skorin við nögl, þeim hefur verið gert að fara bónbjargarleið til að afla fjár svo reisa megi húsnæði og viðhalda því. Þau hafa einnig sjálf þurft að standa straum af dýrum lyfjum og hjálpartækjum svo dæmi séu tekin. Þetta á hins vegar ekki við um Sóltún, þar eru framlög vegna þessara þátta ríflegri en til hinna dvalarheimilanna. Starfsfólki á þeim svíður að geta ekki veitt vistmönnum sínum eins góða aðstöðu og aðhlynningu og kostur er og að sjálfsögðu sætta þeir sig ekki við að vera boðið upp á lakari kost en hlutafélaginu.
Undir þetta skal tekið. Það er í rauninni alveg stórundarlegt að þeim sem láta alla fjármuni renna inn í reksturinn og til uppbyggingarstarfs skuli skammtað naumar úr ríkissjóði en hinum sem hafa á bakinu fjárfesta sem taka til sín arð í eigin vasa. Hvorki starfsfólk né vistfólk á hins vegar að þurfa að líða fyrir siðblindu stjórnvalda. Þess vegna er hinu nýja vistheimili í Sóltúni óskað sólríkrar framtíðar.