SÖLUMIÐSTÖÐ SJÚKLINGA
10.12.2007
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um víðtækar tilfærslur innan stjórnsýslunnar. Þar horfir sitthvað til framfara, annað síður og sumt er beinlínis skaðlegt. Handabakavinnubrögð einkenna þessar tilfærslur og hefur stjórnarandstaðan hvatt til þess að gildistöku verði frestað, að öðrum kosti verði reynt að einangra þá þætti kerfisbreytinganna sem mest orka tvímælis og láta þá bíða.
Smyglgóssið í grein númer 18
Hér hafa menn staðnæmst sérstaklega við smyglgóss í frumvarpi heilbrigðisráðherra um almannatryggingar, en þetta frumvarp er einmitt hluti af hinum umfangsmiklu kerfisbreytingum.
Hvers vegna smyglgóss? Jú vegna þess að í lítilli lagagrein – nánar tiltekið númer 18 í þessu frumvarpi – er heilbrigðisráðherra gefin heimild til að setja á laggirnar sérstaka verslunarmiðstöð fyrir heilbrigðisþjónustu.
Í þessari frumvarpsgrein segir m.a. að hlutverk þessarar sölumiðstöðvar sé „að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og framkvæmd þeirra málaflokka almannatrygginga sem heyra undir heilbrigðisráðherra. Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa lokið námi á háskólastigi. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar. Ráðherra skipar fimm menn í stjórn stofnunarinnar og skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Ráðherra setur stjórninni erindisbréf.“
Allt er klappað og klárt fyrir Guðlaug, heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins. Honum er reyndar ætlað að leggja frumvarp fyrir þingið með vorinu en þá yrði allt um garð gengið, undirbúningi lokið – aðeins eftir að reka smiðshöggið á þessa nýju Sölumiðstöð sjúklinga sem allan vanda á að leysa.
Sölumiðstöðin leysir ekki vandann
Það þarf meira en litla ósvífni að reyna að telja okkur trú um að þarna sé fundin leiðin til að laga mein íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Þessa dagana heyrum við forsvarsmenn heilsugæslunnar og sjúkrahúsanna tíunda vanda sinn í fjölmiðlum. Fjármagn vantar. Yrði fjárhagsvandinn leystur eftir að Sölumiðstöðin yrði tekin til starfa? Ætli vandinn snúist ekki fyrst og fremst um fjármagn og pólitískan vilja. Eða skyldu menn gera sér grein fyrir því að samkvæmt Ríkisendurskoðun jókst framleiðni á Landspítala Háskólasjúkrahúsi um 12,6% á árunum 1999 – 2004 en framhald hefur orðið á þessari þróun fram á þennan dag. Þetta þýðir á mannamáli að það er framkvæmt sem þessu nemur meira fyrir sama fjármagn en áður var gert. Þetta var nú reyndar ekki mikið „mannamál“. En þegar sagt er að þetta þýði aukið álag á starfsfólkið þá skiljum við það öll. Á Landspítala háskólasjúkrahúsi er fyrirsjánlegt að áframhaldandi aðhaldsstefna mun ekki aðeins bitna á starfsfólki heldur einnig á þjónustu; lækningu og aðhlynningu við sjúklinga . Halda menn að SS leysi vandann?
Óútfylltur tékki fyrir Guðlaug Þór?
Það er í hæsta máta óeðlilegt að veita ráðherra óútfylltan tékka eins og gert er með þessu frumvarpi. Almenna reglan á að sjálfsögðu að vera sú þegar kerfisbreytingar eru annars vegar að fyrst sé rædd stefnumörkun á grundvelli málefnalegrar og pólitískrar athugunar. Síðan er ákvörðun tekin. Ríkisstjórnin vill snúa þessu við. Fyrst taka ákvörðun, síðan ræða málið.