SÓMASAMLEGT DÓMSKERFI
Matsfyrirtækið FITCH hefur áhyggjur af íslenska fjármálakerfinu, eða þeim sem eiga kröfur á hina föllnu banka eftir að hafa lánað þeim ótæpilega í nokkur ár. Ekkert undarlegt við þessa afstöðu, og ekkert undarlegt við ríkisútvarpið sem tók viðskiptaráðherrann tali vegna þessa. Yfirgangur ráðherra er slíkur, að sá sem ber ábyrgð á honum í ríkisstjórn, þarf alvarlega að fara að hugsa sinn gang. Í dag var viðskiptaráðherra spurður um FITCH drengina. Látum ráðherra tala um dómskerfið og FITCH: "Það kemur nú svo sem ekki á óvart að matsfyrirtækin skuli hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem komin er upp. Auðvitað er þessi óvissa um það hvernig verður farið með öll þessi myntkörfulán á endanum mjög óþægileg." (Hádegifréttir RÚV 19.07 2010) Síðan er sagt frá því að viðskiptaráðherra telji niðurstöðuna í raun ekki eins slæma og matsfyrirtækið gerir skóna. Gylfi áfram: "Þessi mynd sem FITCH málar upp er nú mjög dökk og dekkri en ég geri ráð fyrir að verði niðurstaðan, því ef íslenska dómskerfið leysir þetta viðfangsefni á sómasamlegan hátt, þá á ég nú ekki von á að afleiðingarnar verði neitt í líkingu við það sem þarna er teiknað upp." (Hádegifréttir RÚV 19.07 2010) Svo mörg voru þau orð. Hvar eru nú lögfræðingarnir á ritstjórastóli, hvar er nú stjórnarskipunarfræðingurinn af Álftanesi? Eða er ég sú eina sem finnst ummæli ráðherra ígildi sparks í púng Hæstaréttar frá þeim sem á að þegja? Hvað finnst lögmönnum þessa lands, hvað finnst dómsmálaráðherranum? Af hverju skjóta þeir ekki skildi fyrir dómskerfið?
Kveðja,
Ólína