Fara í efni

SPILAFÍKLAR KAUPA BÆNDAHÖLLINA EN HVER SKRIFAR UNDIR?


Birtist i helgarblaði Morgunblaðsins 18/19.12.21.
Við sem teljumst til vesturbæinga í Reykjavík höfum fylgst spennt með því hver verði afdrif Bændahallarinnar.
Ég gef mér að öll sjáum við eftir samtökum bænda úr nágrenninu en bændurnir hafa haft höfuðstöðvar sínar í höllinni enda hún kennd við þá. Svo erum við mörg sem sjáum eftir Hótel Sögu, glæsilegasta hóteli landsins. Við myndum hins vegar gleðjast að sjá verðuga nýtingu á hinni miklu höll eins og nú virðist reyndar að verði niðurstaðan.  

Á daginn er komið að Háskóli Íslands og Félagsstofnun stúdenta renni hýru auga til byggingarinnar og á Alþingi hefur fjármálaráðherra verið gefið grænt ljós að ráðast í makaskipti á öðrum eignum sem eru á nafni Háskólans svo þessi milljarða viðskipti geti farið fram.
Ekki er þetta slæmur kostur. Sennilega bara alveg prýðilegur miðað við aðstæður.

Og hverjar eru þá aðstæðurnar? Varla er ofgnótt peninga í hirslum Háskóla Íslands fremur en öðrum stofnunum ríkisins. Ekki nægja makaskiptin ein. Meira þarf að koma til. En þegar betur er að gáð koma fjármunir til Háskóla Íslands úr fleiri áttum en ríkiskassanum einum. Þeir eru nefnilega fleiri kassarnir sem þessi æðsta menntastofnun þjóðarinnar hefur aðgang að. Það eru að sjálfsögðu spilakassarnir í spilavítunum sem skólinn rekur í skjóli ríkisvaldsins.

Spilavíti háskólans eru með samskonar fjárhættuspilabúnað og svæsnustu spilavíti í Las Vegas og Monakó. Það sem skilur að casino Háskóla Íslands frá spilavítunum á þessum stöðum er sennilega fyrst og fremst efnahagur “viðskiptavinanna”. Láglaunafólk  og öryrkjar komast síður til þessara rándýru glysstaða en milljarðamæringar heimsins. Auðvelt er hins vegar að gerast bakhjarl Háskóla Íslands við Hlemm eða í Hamraborginni í Kópavogi. Þar er fólki sagt hvað hægt er að vinna margar milljónir þá mínútuna og minnt rækilega á hið gamalkunna að vogum vinnur. Í Háspennusölum Happdrættis Háskóla Íslands vinnur hins vegar enginn á endanum nema hvað Háskóli Íslands fær stöðugt meira fjármagn til að reisa og reka glæsilegar byggingar til að hýsa fræðasetur um íslenska menningu, siðfræði og hagfræði að ógleymdum mannauðsvísindum.

Allt er þetta heldur nöturlegt þegar haft er í huga að samkvæmt rannsóknum er milljarðahagnaður spilavítanna á kostnað einstaklinga sem ekki eru sjálfráðir gerða sinna og valda með óviðráðanlegri fíkn sinni sér og sínum nánustu ómældum harmi og þjáningum.

Þessu gerir þjóðin sér grein fyrir. Komið hefur fram í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill láta loka spilabúllunum hvort sem er hjá Háskóla Íslands eða öðrum þeim aðilum sem veitt hefur verið leyfi til að hafa fé af fólki með þessum hætti.

Á árinu sem senn er liðið hefur þó margt miðað í rétta átt. Í fyrsta lagi sagði SÁÁ sig frá þessari siðlausu tekjuöflun. Í öðru lagi hafa rekstraraðilar hver á fætur öðrum lokað kössum í sínum húsakynnum þótt það kæmi þeim fjárhagslega í koll. Þetta fólk á mikla virðingu skilið. Í þriðja lagi fjölgar þeim starfsmönnum Háskólans sem krefjast þess að spilvítum skólans verði lokað og í fjórða lagi eru komin fram samtök sem berjast af einurð gegn þessari óværu og hafa greinlega náð í gegn til þjóðarinnar.

Það er hins vegar þjóðarinnar að ná í gegn til ríkisstjórnarinnar. Fram kom í fréttum í aðdraganda alþingiskosninganna í haust að enginn ríkisstjórnarflokkanna virtist hafa sama skilning á vandanum og meirihluti þjóðarinnar hefur. Aðspurðir um hvað flokkarnir vildu gera í þessum málum þá er skemmst frá því að segja að Sjálfstæðisflokkurinn svaraði Samtökum áhugafólks um spilafíkn á þá lund að til greina kæmi „að löggjafinn setji reglur um forvarnarstarf og ábyrgan rekstur fyrirtækjanna i þessari atvinnugrein”, Vinstri græn vildu betri geðheilbrigðisþjónustu en Framsókn sagðist ekki hafa mótað „opinbera afstöðu til þess að banna rekstur spilakassa.”

Þarna er því verk að vinna ef takast á að kalla stjórnvöld til ábyrgðar.

En þá vaknar spurningin hvort fólkið sem kaupir Bændahöllina fyrir Menntasvið Háskóla Íslands verður látið njóta sannmælis þegar skrifað verður undir kaupsamninga. Varla fer undirskriftin fram í casínóinu á Lækjartorgi en kannski í Stjórnarráðinu sem einnig er við það torg. Það verður fróðlegt að sjá hvort það verður rektor Háskóla Íslands sem kemur til með að munda pennann eða ráðherrar ríkisstjórnarinnar.
Sennilega ráðherrarnir. Það væri rökrétt því þeir eru ábyrgir fyrir því að byggingar undir æðstu menntastofnun landsins eru fjármagnaðar með því að nýta sér veikleika fólks sem á erfitt uppdráttar.