SPILLING Í SYSTURFLOKKNUM
Sæll Ögmundur.
Ég hef stundum undrast þá miklu umræðu sem oft sprettur upp á hinum Norðurlöndunum þegar uppvíst verður að stjórnmálamenn þar eru nátengdir fyrirtækjum. Þegar í ljós kemur að þeir eiga í fyrirtækjum sem til dæmis eru í viðskiptum við ríki eða sveitarfélög eða tengjast stjórnmálalífinu eða öðrum hætti. Ég undrast vegna þess að hér hafa fjölmiðlar ekki gert mikið úr svona tengslum. Nýjustu dæmin um þetta eru að Sören Gade, varnarmálaráðherra, er einn af stórum hluthöfum í rússnesku svínabúi, og að eiginmaður þróunarmálaráðherrans, Ullu Törnæs, sem stýrir svínakjötsframleiðslunni í nágrenni Holsterbro hefur ráðið lettneska starfsmenn án tilskilinna atvinnuleyfa í landi þar sem innflytjendamál eru hvað ströngust í Evrópu. Mál þessi ber hátt í Danmörku þótt hérlendir fjölmiðlar hafi ekki beint séð ástæðu til að fjalla um spillinguna sem tengist stærsta stjórnmálaflokki Danmerkur, en flest málin sem hafa verið að koma upp tengjast Venstre, sem er systurflokkur Framsóknarflokksins. Hvað finnst þér Ögmundur, gamli fjölmiðlamaður. Þætti þér eðlilegt að fjölmiðlar beindu sjónum sínum að tengslum stjórnmálamanna hér við fyrirtækin í landinu, eða að eign stjórnmálamanna í fyrirtækjum?
Stefán
Þakka þér bréfið Stefán. Ég tel að bæði Alþingi og fjölmiðlar hafi vanrækt skyldur sínar í þessum efnum. Það hafa verið ágætir sprettir þá kannski helst í Morgunblaðinu - stundum meira að segja mjög góðir - enda blaðið haft mesta burði til að kafa í hlutina. Spurning er hins vegar um það í mínum huga að hvaða marki Morgunblaðið og aðrir fjölmiðlar gera þegar komið er að hinni pólitísku kviku. Það sem fyrst þarf að gera er að við innrætum okkur þá afstöðu að könnun á tengslum stjórnmála og viðskiptahagsmuna er fullkomlega eðlileg. Þetta er ekki spurning um hnýsni eða illgirni heldur forsenda þess að við reisum ekki þjóðfélag byggt á spillingu. Þeir stjórnmálamenn sem flæktir eru inn í viðskiptaleg hagsmunatengsl en telja sig ekki hafa neitt að fela í þessum efnum og allar gjörðir sínar réttlætanlegar og eðlilegar, ættu sjálfir að ríða á vaðið og leggja öll sín spil á borðið. Ert þú með tillögu um það Stefán hver ætti að ríða á vaðið?
Kveðja,
Ögmundur