Fara í efni

SPRETTHARÐARI EN HRYGNA ,VÍÐSÝNNI EN ÖRN

Það er alveg makalaust hvernig sumt fólk hagar sér og lætur í kringum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í formannsslagnum í Samfylkingunni. Á meðal margra stuðningsmanna hennar svífur yfir vötnum óviðfeldin og afar óæskileg persónudýrkun. Þessi upphafning á foringjanum minnir mjög á það sem viðgengist hefur til að mynda gagnvart Davíð Oddssyni í Sjálfstæðisflokknum - og er kunnara en frá þurfi að segja hvernig foringjahollustan hefur leikið lýðræðið þar á bæ. Stundum er dýrkunin undirliggjandi en stundum kemst hún á ógnarinnar flug og í hæstu hæðir eins og t.d. hjá Jóni nokkrum Björnssyni. Jón þessi bregður upp ógleymanlegri lýsingu á eiginleikum Ingibjargar og birtast allir þeir miklu mannkostir á heimasíðu hennar, ingibjörgsolrun.is. Þar segir Jón um foringjaefni sitt: „Hún er sprettharðari en hrygna, víðsýnni en haförn og þolnari en hreindýr. Hún hefur mörg hundruð gígabæta minni. Veikleikar hennar eru bæði fáir og ómerkilegir. Svo er hún skynsöm, réttsýn og heiðarleg og tekur örugglega ekki nema í mesta lagi eitt feilspor á ævinni. Hún á að stjórna Samfylkingunni, Íslandi og helst allri Evrópu - ekki spurning.“

Fyrir hönd þeirra sem unna lýðræði er vonandi að fólk uggi að sér í svona nokkru og velti því líka fyrir sér hvort Ingibjörg Sólrún hafi yfirleitt áhuga á þeim ofurmennabúningi sem stuðningsfólkið hneigist allt of oft til að klæða hana í. Sérstaklega ánægjulegt væri auðvitað ef í ljós kæmi að Jón þessi ofannefndur og ýmsir fleiri vitnarar um ágæti formannsefnisins væru bara grallarar inn við beinið. En um það hef ég ekki grænan grun og enga sérstaka ástæðu til að ætla. En hitt vita aftur á móti flestir að persónudýrkun og lýðræði fara ekki saman. Og afar illa rímar þessi dýrkun við málflutning Samfylkingarinnar sem hefur gefið sig sérstaklega út fyrir að vera eins konar “þróunarsetur” fyrir lýðræðislegar hugmyndir. Eðlilegt hlýtur að teljast að spurt sé hvort þetta “hugmyndasetur” demókratanna sé eftir allt saman bara orðin tóm? Og hvað með hin margumræddu umræðustjórnmál sem Ingibjörg Sólrún hefur haldið svo mjög á lofti? Hvernig munu þau ganga fyrir sig ef formaðurinn er alvitur dýrðardyndill? Er þá nokkuð annað að gera fyrir “Jónana og Jónurnar” í flokknum en að klappa fyrir foringjanum eftir að hann hefur hugsað, talað og ákveðið allt milli himins og jarðar fyrir þeirra hönd og annarra vandamanna?

Kannski - og vonandi - eru þessar athugasemdir mínar á einhverjum misskilningi byggðar; kannski skil ég heldur ekki hugtökin umræðustjórnmál og lýðræði. En ef svo skyldi nú vilja til að málflutningur minn hér að ofan sé amk. á einhverjum rökum reistur verður því naumast neitað að sporin hræða. Í stjórnmálum almennt hafa nefnilega dýrðardyndlar sjaldnast reynst vel. Oftast hafa þeir unnið gegn frjálsri hugsun og undantekningarlaust er afar takmarkað rúm fyrir lýðræði, og þá helst bara að nafninu til,  þegar þessi meintu “ofurmenni” eru annars vegar.
Þjóðólfur