Spunadoktor Blairs
Það er umhugsunarvert hve oft Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og nánustu samstarfsmenn eru sakaðir um óvönduð vinnubrögð og að í því samhengi komi alltaf sömu nöfnin upp á yfirborðið. Eitt þessara nafna er Alastair Campbell sem er almannatengslafulltrúi breska forsætisráðherns. Í Kosovostríðinu var Cmpbell þessi einhvern tímann gerður út til Brussel að ræða upplýsingamál í höfuðstöðvum Nató. Haft hefur verið eftir Jamie Shea þáverandi fréttafulltrúa Nató að þessi heimsókn hafi verið mikil mistök því tilfinningin sem menn hafi fengið við hana hafi verið sú að hinn gestkomandi maður hafi haft meiri áhuga á (upp)spunafréttum ("spin-doctoring") en heiðarlegum fréttaflutningi. Á þessum tíma stóðu Tony Blair og Alastair Campbell líkt og nú í stríði við BBC. Þeir hömuðust á þeim fréttamönnum sem leyfðu sér minnstu gagnrýni á árásarheri Nató. Sérstakur skotspónn var John Simpson fréttamaður BBC. Hann lýsti því yfir að ef Tony Blair nyti ekki þinghelgi myndi hann lögsækja hann fyrir rógburð. Allt þetta kemur fram í bók sem ég vísaði til í greinarkorni hér á vefsíðunni sl. apríl (tilvísunin í Jamie Shea er á bls, 58): https://www.ogmundur.is/is/greinar/vinsamleg-aras=
Einsog fram hefur komið í pistlum á þessari vefsíðu fer því fjarri að ég telji að BBC sé hafið yfir gagnrýni. Þegar Bretar hafa átt í stríði hefur BBC oftar en ekki fallið á prófinu að mínu mati og dregið taum Breta á kostnað hlutlægrar fréttamennsku. Þetta virðist hins vegar ekki nægja bresku ríkisstjórninni, að ekki sé minnst á hina bandarísku, og ætlast valdhafarnir greinilega til að fjölmiðlarnir stígi sérstakan áróðursdans jafnan þegar þeir þurfa á því að halda.
Aðeins þetta virðist geta skýrt ófyrirleitna framkomu manna á borð við Alastair Campbell sem í engu hefur látið af fyrri háttum og hvergi hefur slegið af hroka sínum. Hann er ekki reiðubúinn að gangast við þeim ásökunum um lygar sem á hann eru bornar nema að litlu leyti þótt öllum megi ljóst vera að "spunadoktorinn" frá Brussel er enn á ferð.
Eftir eina hrinu Campbells gegn BBC þar sem hann fór fram á afsökunarbeiðni af hálfu fjölmiðilsins, er eftirfarandi haft eftir Richard Sambrook framkvæmdastjóra BBC (sjá vísan Morgunbl. 27.júní sl. í AP fréttastofuna): "Satt best að segja ..tel ég ekki að BBC þurfi neina umvöndun frá almannatenglsaskrifstofu sem stal tólf ára gamalli nemendaritgerð (af netinu) og dreifði síðan án þess að geta höfundarins."