Fara í efni

SPURNING JÓNS JÓNS JÓNSSONAR

FOSSINN
FOSSINN

Á heimasíðu mína barst mér fyrirspurn frá lesanda - Jóni Jóni Jónssyni - þar sem hann spyr, hvort geti verið að ég treysti sjálfum mér betur en þjóðinni. Tilefnið var án efa að þá hafði ég svarað öðrum manni, um hugsanlega afsögn mína sem ráðherra, á þá lund að ég vildi vera þar sem ég gæti haft mest áhrif.
Spurningin hefur hins vegar margar víddir og svarið er ekki alveg einfalt. Þannig hljóta stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar að spyrja sig hvort undir öllum kringumstæðum sé rétt að hanga á völdunum. Í mínum huga er svarið engan veginn einhlítt, það er háð aðstæðum í tíma og rúmi. Sjálfur hef ég alla tíð haft sterka fyrirvara gagnvart hrárri valdapólitík og tel því mikilvægt að halda stöðugt að okkur gagnrýnum spurningum um völd og áhrif. Sem betur fer hefur stjórnmálaflokkum oft tekist bærilega að láta orð sín og athafnir ríma og vera trúir hugsjónum sínum. Mörg dæmi eru líka um pólitískar hrakfarir þegar leiðarljósið hefur verið það eitt að halda um valdatauma.

Vænlegra að vera í stjórn eða stjórnarandstöðu?

Þannig er það mitt mat að stjórnarseta breska Verkamannaflokksins, undir forystu þeirra Blairs, Browns og félaga frá 1997 og vel fram á þessa öld, hafi verið til mikillar óþurftar, veikt stoðir velferðarkerfisins breska og grafið undan félagshyggjustjórnmálum með því að múlbinda félagslega þenkjandi en flokkshollt fólk. Þetta var okkur sem fyldumst náið með framvindunni í Bretlandi víti til varnaðar, dapurleg birtingarmynd úr heimi þöggunarstjórnmála. Í stjórnandstöðu hefði Verkamannaflokkurinn hugsanlega verið gagnrýnni, alla vega grasrótin, og þannig getað haft jákvæðari áhrif á breska þjóðfélagsþróun. Um það má þó deila í ljósi þess að hægri sinnaður nýkratismi hafði náð tökum á flokknum og hefði málflutningur hans í stjórnarandstöðu, altént flokksapparatsins, að öllum líkindum verið á markaðsvísu og hægri sinnaður, svipað því sem við þekkjum hér á landi frá núverandi stjórnarandstöðu, sem helst grætur auðlegðarskatt og tregðu við að  falbjóða orkuauðlindirnar fjölþjóðaauðvaldi til brúks.

Treystirðu sjálfum þér betur?

En gagnrýni Jóns Jóns Jónssonar á hvorki skylt við Tony Blair né Bjarna Ben. Ég gef mér að hann vilji pólitískar áherslur til hagsbóta öryrkjum, atvinnulausu fólki og fórnarlömbum verðtryggingarkreppunnar, einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum. Treystirðu ekki þjóðinni til að velja sér fólk sem starfar í anda þessara hópa betur en þið gerið, sem nú vermið ráðherrastóla? Þetta hygg ég að sé á bak við knappt bréf JJJ: „Treystir þú sjálfum þér betur en þjóðinni?" Og í framhaldinu liggja aðrar spurningar í loftinu, hvers vegna segirðu ekki af þér, svo hraða megi róttækri framfaraþróun? Treystirðu ekki þjóðinni? Treystirðu sjálfum þér betur?

Verðum öll að treysta eigin dómgreind

Svar mitt er þetta: Að sjálfsögðu byggi ég á eigin dómgreind til eigin verka en ekki dómgreind annarra manna þótt viðhorfin í samfélaginu hljóti alltaf að hafa einhver mótandi áhrif á mig sem aðra. Ef ég hefði látið stjórnast af dómgreind samfélagsins í aðdraganda hrunsins hefði ég ekki sagt og gert ýmislegt sem ég sagði og gerði á sínum tíma í fullkomnu stríði við tíðarandann og í hrópandi minnihluta!
Þetta breytir ekki hinu, að hvorki ég né nokkur annar maður hefur rétt til þess að ráðskast með annað fólk og hafa vit fyrir því eins og stundum er sagt. Þannig get ég ákveðið fyrir mitt leyti að ég telji mig hafa meira vægi við ríkisstjórnarborð en í þingsal og horfi ég að sjálfsögðu ekki síst til þeirra málasviða sem heyra undir það ráðuneyti þar sem ég sit við stjórnvölinn. Ég tel einnig að núverandi ríkisstjórn sé að sinna mörgum mikilvægum framfaramálum og á ýmsum sviðum sé hún að grípa til aðgerða og vinna að málum sem ég sæi annan meirihluta á þingi, að öðru óbreyttu, ekki gera. Þvert á móti þá yrði haldið niður í gamalt misskiptingarhjólfar sem við þekkjum svo alltof vel allar götur frá árinu 1991 þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda.

Virðing fyrir sjálfum sér og öðrum

En hvernig förum við þá að því að sætta þetta tvennt, annars vegar virðingu fyrir því að hver og einn fái að sýna eigin dómgreind trúnað og svo hins vegar hinu, að sá hinn sami fái ekki völd og aðstöðu til að ráðskast með aðra, þvert á þeirra dómgreind og þeirra vilja?
Það gerum við með beinu lýðræði. Fyrst og fremst með því að stórauka möguleika fólks til beinnar ákvarðanatöku.
Ég er sannfærður um að beint lýðræði mun á komandi áratugum gerbreyta valdahlutföllum í þjóðfélaginu. Þau sem starfa innan hinna hefðbundnu valdaforma tregðast hins vegar við og reyna mörg hver að sporna gegn þessari þróun. Greinilegt er að þau skynja ekki sinn vitjunartíma. Til marks um það var þegar meirihluti Alþingis felldi á nýliðnu ári tillögu mína um að fimmtungur kjósenda ætti að hafa óskoraðan rétt til að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu í sveitarfélaginu. Var tillagan þó mjög íhaldssöm fyrir minn smekk. Samband íslenskra sveitarfélaga var hins vegar á enn íhaldssamari nótum og bað Alþingi um að hefta lýðræðisvæðinguna! Sveitarstjórnarfulltrúar og þingfulltrúar sýndu þarna í verki tregðu fulltrúalýðræðisins til að afsala völdum til almennings - hins eiginlega handhafa valdsins.

Lýðræði er óvéfengjanlegur réttur

Þá voru það mér vonbrigði að í tillögum Stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir banni við því að almenningur fái að kjósa beint um fjárhagsleg efni, nokkuð sem ég finn enga réttlætingu fyrir. Þetta byggist á því afturhaldssama viðhorfi að á vissum sviðum sé réttlætanlegt að hafa vit fyrir fólki!
Þetta er forkastanleg afstaða því staðreyndin er sú, að þótt einstaklingarnir trúi og treysti á eigin dómgreind, þá hafa þeir ekki rétt til að traðka á dómgreind annarra. Þar kemur til kasta hinnar lýðræðislegu kröfu; sú krafa á ekki að lúta skömmtunarvaldi duttlungastjórnmála. Sú krafa byggist nefnilega á óvéfengjanlegum rétti.
Þeirrar skoðunar hljóta lýðræðissinnar að vera og lýðræðinu vil ég vera trúr, svo ég botni svar mitt við spurningu Jóns Jóns Jónssonar.
Í fáum orðum: Því fer fjarri að mín dómgreind og lýðræðislegur meirihlutavilji fari alltaf saman! Þegar svo er ekki treysti ég á eigin dómgreind en ekki meirihlutans. Í þeim skilningi mætti því segja að ég treysti sjálfum mér betur en þjóðinni! Nákvæmlega eins hugsa margir aðrir - sennilega flestir sem hafa sjálfstæða hugsun og berast ekki með straumnum. Um hitt þurfum við svo aftur að sameinast og það er að virða lýðræðið; að enginn hefur rétt til þess að ráðskast með annað fólk. Alltof víða er að finna sviðna jörð eftir þá sem telja að þeir einir viti.