Spurningar til yfirvalda í Reykjavík
Birtist í Morgunblaðinu 06.09.04.
Síðastliðinn föstudag var krabbameinssjúkur öryrki borinn út með lögregluvaldi úr leiguhúsnæði í eigu Reykjavíkurborgar eftir langvarandi vanskil á greiðslum. Viku fyrr hafði formlega verið farið fram á að útburði yrði frestað um nokkra mánuði á meðan ástand mannsins yrði kannað betur og leitað lausna. Fallist var á að fresta útburði um eina viku svo trúnaðarlækni borgarinnar gæfist færi á að skila greinargerð um málið. Engu að síður voru, áður en læknisrannsókn fór fram, gerðir út af örkinni menn til að loka fyrir rafmagn í íbúð mannsins. Af hálfu borgarinnar hefur enginn grennslast fyrir um afdrif þessa einstaklings eftir að hann var rekinn á dyr. Af þessu tilefni óska ég eftir að eftirfarandi verði upplýst opinberlega:
Í fyrsta lagi, hve algengt er að efnalítið fólk sé borið út úr húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar vegna vanskila?
Í öðru lagi óska ég eftir upplýsingum um hvern skilning borgaryfirvöld leggja í 5. grein Laga um Húsnæðismál þar sem segir m.a.: "Sveitarstjórn ber ábyrgð á og hefur frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun".
Í þriðja lagi spyr ég um hversu oft sé lokað fyrir hita og rafmagn hjá efnalitlu fólki í Reykjavík og hvort það sé jafnan gert í samráði við félagsyfirvöld í borginni?
Nánar geri ég grein fyrir umræddu máli á heimasíðu minni, ogmundur.is