SPURNINGUM UM THORSIL ÓSVARAÐ
Thorsil byrjaði að kanna byggingarstað við Þorlákshöfn, í næsta sveitarfélagi við Árborg þar sem Eyþór Arnalds var oddviti sjálfstæðismanna. Ein af ástæðunum fyrir því að Thorsil hætti við að reyna að reisa verksmiðjuna á því svæði var skortur á nægjanlega miklu rafmagni sem fyrirtækið þurfti í framleiðslu sína. Ofanskráð er úr grein í Stundinni : "Svona eignast maður virkjanakost : Keyptu af Orkuveitunni fyrir 34 milljónir."
Hlýtur þetta ekki að vera mjög sérkennileg skýring að vegna þess að "næga orku" var ekki að finna í Þorlákshöfn, þá hafi verkefnið verið flutt enn lengra frá dreifikerfi aðal söluaðilans LSV, út á Reykjanestá!? Hvar er orku þar að hafa? Stóð til að semja við HS orku á lægra orkuverði en unnt er að semja við LSV? Skiptir engu um verðið hversu langt þarf að flytja orkuna frá væntanlegum virkjunum í Þjórsá?
Á síðasta kjörtímabili var sífellt klifað á því að ástæða þess að ekkert gekk né rak með framkvæmdir við nýja álbræðslu Norðuráls í Helguvík væri að Steingrímur og Jóhanna væru svo mikið á móti "álverum"!
En hálfu kjörtímabili eftir að "andstæðingar álvera" hurfu úr ráðherrastólum, hefur enn ekki verið samið um orkuverðið! Getur verið að hinn kanadíski eigandi 2/3 hluta HS orku hafi sett sig upp á móti að fyrirtækið seldi orkuna á "ofurlágu þriðjaheimsverði" og þetta komi ráðherrum og ríkisstjórnum á Íslandi ekkert við? Ekki nema að með lagasetningu frá Alþingi verði LSV þvinguð niður í "ásættanlegt verð". Þá eru ráðherrar og ríkisstjórn orðnir beinir aðilar að málinu!
Sveinn Aðalsteinsson