Fara í efni

SPURT OG SVARAÐ UM FANGELSIS-MÁL

Sæll Ögmundur
Mig langar að forvitnast um þína tíð sem innanríkisráðherra.
Samkvæmt þeim heimildum, sem ég hef þá hafðir þú ekki mjög mikinn áhuga á eða tíma til að sinna fangelsismálum.
Nú er andrúmsloftið í þjóðfélaginu orðið þannig að fólk telur að betra sé að "betra" fanga í stað þess að refsa þeim. Á Íslandi er refsistefna sem hefur verið við lýði í áratugi og hefur aldrei breyst. Við erum í raun með sama refsistefnukerfið og USA og UK þó vissulega séum við ekki með dauðarefsingar og aðbúnaður er mun betri hérna.
Það sýnir sig líka í endurkomutíðni í fangelsin sem er sú sama hjá okkur og í þessum löndum. En aðbúnaður er samt sem áður ekki aðalatriðið heldur þarf fangavist að hafa innihald.
Norðurlöndin öll utan Ísland hafa tekið upp betrunarvist með ótvíræðum árangri með fækkun glæpa, fækkun endurkoma í fangelsin, minni kostnaðar hjá fangelsunum, lögreglu og dómsstólum.
Mesti árangurinn er kannski í fækkun brotaþolenda enda er það ekki metið til fjár. Raunveruleg endurkomutíðni í fangelsin á Íslandi hefur aldrei verið gefin upp heldur ávallt vísað í gamla könnun sem er samnorræn en Fangelsismálastofnun ríkisins sendi sjálf tölurnar í þá könnun árið 2008 en könnunin kom út árið 2010.
Nú bý ég yfir heimildum að Stefán Eiríksson fyrrv. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafði sent þér tillögur um að færa fangavist á Íslandi í betrunarhorf og láta fanga fara í gegnum prógram og sanna sig með aðstoð sérfræðinga og í staðinn fengju þeir reynslulausn fyrr og allir fangar væru jafnir fyrir því ef þeir standa sig. Ég hef mikinn áhuga á að vita hvers vegna þetta var ekki innleitt og hvers vegan þú sem innanríkisráðherra tókst þig ekki til og breyttir refsikerfinu í betrun og breyttir sögunni á Íslandi í fangelsismálum og á sama tíma hefðir þú getað komið í veg fyrir ótal glæpi og fækkað brotarþolendum og sparað gífurlegan pening á öllum sviðum til langs tíma en ekki kannski innan tíma kjörtímabils.
Mitt álit er það að verknám, starfsþjálfun og samskipti við fjölskyldu er lykillinn af betrun, við ættum að framleiða smiði, múrara, pípara, kokka og bakara. Það væri gaman að heyra í þér varðandi þessi mál.
Bestu kveðjur,
Arnar Jónsson

Ég er þér sammála um meginsjónarmiðin sem koma fram í bréfi þínu um hvert stefna beri í fangelsismálum.


Hitt er aftur alrangt hjá þér að ég hafi ekki horft til fangelsismálanna, hvorki haft á þeim áhuga né tíma til að sinna þeim. Þarna ertu að hafa mig fyrir rangri sök og heimildarmenn þínir, sem þú vísar til, að bregðast þér.

Sannleikurinn er sá að ég lét fangelsismál og málefni fanga mig miklu varða. Þannig vann ég að því að tryggja fjárveitingar fyrir nýtt fangelsi á Hólmsheiði, m.a. annars til að bæta alla aðstöðu fanga og beitti mér jafnframt fyrir auknu fjárframlagi til annarra fangelsa. En það var vissulega erfitt á þeim miklu niðurskurðartímum sem voru á ráðherraárum mínum. Það má heita að þetta hafi verið varnarbarátta einsog víðar í velferðarkefinu. Páll Winkel, fangesmálastjóri og Margét Frímannsdóttir þrýstu á um fjárveitingar til að bæta aðstöðu fanga á marvíslegan hátt og reyndi ég eftir mætti að styðja við bakið á þeirri viðleitni.
Á Litla Hrauni var unnið gott starf í þessu efni undir verkstjórn Margrétar og að hennar lofsverða frumkvæði en það verður að játast að miklu meira fjármagn hefði þarna þurft að koma til sögunnar til að ná þeim markmiðum sem hún stefndi að. 

Ég flutti frumvarp á þingi um breytingu á lögum um fullnustu refsinga sem fólu í sér upptöku á rafrænu eftirliti í lok afplánunar og rýmkun á samfélagsþjónustu. Frumvarpið var samþykkt þann 16. september 2011.  Breytingin fól í sér að fangar sem dæmdir hafa verið í 12 mánaða fangelsi eða lengur geta nú lokið afplánun utan fangelsis undir rafrænu eftirliti.  Úrræðið á að hjálpa föngum að aðlaga sig að samfélaginu og takast á við lífið.  Samfélagsþjónusta var einnig rýmkuð með sama frumvarpi þannig að þeir sem dæmdir eru í allt að 9 mánaða fangelsi (í stað 6 áður) geti fullnustað dóm með samfélagsþjónustu.  Ég lagði hins vegar til í í upphaflegu frumvarpi sem ég sendi þinginu, að tímamörkin yrðu rýmri eða allt að 12 mánaða fangelsidómi en Alþingi breytti því í 9 mánuði - því miður.

Það er rétt hermt hjá þér að í minni tíð kom inn mjög jákvætt erindi frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Lagðar voru til þrjár tillögur og var ein þeirra, „Góð lausn" - úrræði og eftirfylgni fyrir síbrotamenn sem vilja hætta afbrotum.  Tillagan lýtur fyrst og fremst að félagslegum úrræðum til handa síbrotamönnum.  Í tíð minni hófst vinna við gerð réttaröryggisáætlunar og þar með gerð fullnustuáætlunar en hugmyndin var að fjallað yrði um þetta verkefni í samvinnu við velferðarráðuneytið.  Vinna við gerð fullnustuáætlunar tafðist hins vegar af ástæðum sem ég réð ekki við. En vilji og eftirrekstur af minni hálfu var alla tíð fyrir hendi. Sumir hlutir gerast því miður hægar en maður helst vildi.
Tillagan, „góð lausn" á sér fyrirmynd. því hún er í líkingu við verkefni sem sett var á laggirnar í Danmörku á svipuðum tíma og tillagan var kynnt. Í Danmörku geta fangar fengið meiri félagslega aðstoð meðan á afplánun stendur og þegar líða fer að lokum afplánunar fá þeir einnig félagslega aðstoð frá viðkomandi sveitarfélagi um hvað tekur við þegar út er komið.  Ekkert í lögum um fullnustu refsinga kemur í veg fyrir að fangi fái félagslega aðstoð.  Félagsleg- og sálfræðiaðstoð í fangelsi takmarkast af fjárveitingum til Fangelsismálastofnunar. Þeir sem til þekkja kunna vitaskuld skil á þessari hlið málsins. Og vilji menn að þau sem komu að þessum málum í innanríkisráðuneytinu í minni tíð, njóti sannæmils, ber að halda henni til haga. 

Þess má geta að í tíð Rögnu Árnadóttur, forvera míns í embætti, var óskað eftir fjárveitingu til að styrkja meðferðarúrræði á Litla-Hrauni og reyndi ég að halda þessu starfi áfram.

Hægt er að reikna endurkomutíðni fanga með mismunandi hætti.  Ákveðið var í norrænu samstarfi að endurkomutíðni á Norðurlöndunum yrði reiknuð út frá sömu viðmiðunum á öllum Norðurlöndunum og er það gert í dag.  Samkvæmt því er endurkomutíðni á Íslandi ekki svo slæm - þótt hver einasta endurkoma sé að sjálfsögðu ákveðinn ósigur. Hinn langi boðunarlisti á Íslandi er náttúrlega mjög bagalegur og kann að hafa sín áhrif meðal annars á þennan veruleika.

Ég er þér sammála að nauðsynlegt era að nálgast fangesismál út frá hinum mannlega vinkli og hugmyndum um að hjálpa þeim sem  hlotið hafa dóm, til farsældar í lífinu. Burt séð frá þeirri staðreynd að slík nálgun skilar sér peningalega þá er stóra málið hitt að viðkomnadi einstaklingar og þar með allt umhverfi þeirra batnar fyrir bragðið.

Ég leyfi mér að segja að þetta markmið var mér alltaf efst í hug þegar ég réðst í þær lagabreytingar og þá vinnu sem ég lét inna af hendi og vísað er til hér að framan.  

Ég þakka þér fyrir bréf þitt og fagna áhuga þínum á þessu mikilvæga velferðar- og réttlætismáli. Um markmiðin erum við samherjar.

Með kveðju,
Ögmundur Jónasson