Í viðtali Morgunblaðsins við Sigfús Jónsson, forstjóra Nýsis, kemur fram sú hugmynd að setja varðskipin í einkaframkvæmd. Þessi hugmynd er borin undir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra í Morgunblaðinu í dag. Björn segist aldrei hafa hugleitt þetta, en þó þyki honum þessi hugmynd "ekki fjarlægari en margt annað". Ekki fjarlægari en hvað Björn? Eins og til dæmis að bjóða út embætti dómsmálaráðherra? Það er greinilegt að Björn Bjarnason, ráðherra talar hér samkvæmt gömlu forriti. Björn veit sem er, að allt einka- eitthvað hlýtur að vera gott samkvæmt því sem honum var innrætt í Heimdalli forðum daga. Það er erfitt að ganga af barnatrúnni. En þeim sem hefur verið fengið ákvörðunarvald í málefnum einnar þjóðar ber skylda til að skoða gagnrýnið forsendur hugmynda sinna. Þannig gæti verið nokkurs virði fyrir dómsmálaráðherra landsins að íhuga hvort barnatrúin væri byggð á ranghugsun? Ágætur og trúverðugur bisnissmaður sagði einhvern tímann við mig, að einkaframkvæmd væri neyðarúrræði, því aðeins skiljanleg, að hinn opinberi aðili, ríki eða sveitarfélag, væri fjárvana, því einkaframkvæmdin væri dýrari kostur en opinber framkvæmd. Þessi maður heitir Gunnar Birgisson og er oddviti Íhaldsins í Kópavogi, alþingismaður Sjálfstæðisflokks og verktaki; maður með mörg járn í eldi. Gunnar Birgisson hefur eftir því sem ég veit best miklar efasemdir um einkaframkvæmd. Aldrei hef ég heyrt Gunnar sakaðan um vinstrivillu svo gripið sé til orðfæris frjálshyggumanna. Eftir því sem ég kemst næst er maðurinn helblár. Hann er hins vegar tilbúinn að horfa til reynslunnar og virkja mikilvægustu orkulind allra tíma: Skynsemina.