Staða Íslands eftir 10-20 ár
Daginn. Langar að spyrja þig. Hvernig sérðu fyrir þér stöðu Íslands í heimsmálum eftir 10-20 ár? Ég er þá að meina t.d. innganga í Evrópusambandið eða úrsögn úr NATO og þess háttar. Takk og bæ.
Bjarni Sveinsson
Sæll Bjarni.
Þakka þér fyrir bréfið. Það er spennandi að velta því fyrir sér hvernig heimurinn lítur út eftir einn eða tvo áratugi. Mín draumasýn er sú, að við stöndum þá utan hernaðarbandalaga, herinn verði farinn af landi brott og Ísland farið að láta að sér kveða á alþjóðavettvangi sem rödd lýðræðis, jafnaðar og frelsis í stað þess að gerast í nánast hverju máli taglhnýtingur Bandaríkjastjórnar. Evrópusambandið mun hafa þróast enn lengra í átt til eins ríkis og munu þá margir sjá að ekki er sérlega eftirsóknarvert fyrir fámenna þjóð að heyra til útjaðarsvæða Evrópuríkisins. Það felst mikil áskorun í því einu að þurfa að standa á eigin fótum í alþjóðasamfélaginu og reyna að pluma sig. Ef okkur tekst að svara þessari áskorun, sem oft hefur tekist bærilega í tímans rás, þá er þarna fólgin mikill sprengikraftur; úr læðingi eru leyst öfl sem eru mjög skapandi. Það gerist hins vegar ekki í útjaðarbyggð stórríkis. Ég held að þar á bæ yrðu menn líklegri til að sérhæfa sig í styrkjakerfi Evrópuríkisins. Ef Íslendingar leggja áherslu á ný gildi í utanríkispólitíkinni, hætta að miða við það eitt að þóknast Bandaríkjastjórn svo þeir fari ekki með herinn héðan, þá mun það eitt nægja okkur til að skapa eitt eða tvö hagvaxtarprósentustig, fyrir utan að réttlætisstuðull þjóðarinnar yrði réttur af.
Kveðja, Ögmundur