Stefna í umhverfismálum
Birtist í Mbl
Að mörgu leyti er það táknrænt að fyrsti opni stjórnmálafundurinn sem Stefna félag vinstri manna boðar til skuli hafa fjallað um umhverfismál. Fundurinn sem fram fór í síðustu viku við húsfylli undir fundarstjórn Kristínar Einarsdóttur, fyrrverandi alþingismanns, var fyrsti fundur í röð þriggja sem Stefna boðar til á sjö dögum um þrjá grundvallarþætti stjórnmálanna: umhverfismál, jafnrétti í þjóðfélaginu og utanríkismál.Til þess að halda erindi á þessum fundum hefur verið leitað til fólks sem býr yfir sérþekkingu og hugmyndaauðgi til að varpa athyglisverðu ljósi á þessa málaflokka.
Varnaðarorð og bjartsýnir tónar
Í fróðlegu erindi sem Hjörleifur Guttormsson alþingismaður flutti var gerð grein fyrir samþykktum alþjóðasamfélagsins í umhverfismálum og athygli vakin á stöðu Íslands í því samhengi. Samkvæmt samanburðartölum kemur fram að framlag Íslands til þróunaraðstoðar er með því lægsta sem í heiminum gerist hjá vel stæðum ríkjum, þ.e. aðeins um 0,1% af þjóðarframleiðslu samanborið við 1,0% í Danmörku og 0,8 0,9% í Noregi og Svíþjóð. Á margfrægri Ríó-ráðstefnu um umhverfi og þróun var lögð áhersla á að stefnt yrði að því að jafna aðstöðumun fátækra ríkja og auðugra með því að efla þróunaraðstoð. Rökin fyrir þessu voru m.a. á þá lund að brýnt sé að allar þjóðir verði bjargálna og tryggi þegnum sínum lágmarks menntun og heilsugæslu til að koma á sjálfbærri þróun með nauðsynlegu tilliti til umhverfisverndar. Og hvað losun gróðurhúsalofttegunda snertir eru Íslendingar rétt í meðallagi Vestur- Evrópuþjóða. Mörgum brá í brún við þessar upplýsingar því í huga okkar flestra er Ísland hreint land í samanburði við iðnaðarþjóðir meginlands Evrópu. Hljóta þessar tölur og samanburður að vekja okkur til umhugsunar um hvert stefnir og að þjóðin á að standa að því átaki sem samþykkt var í Kyoto í fyrra. Þá sýndi Hjörleifur Guttormsson fram á hve veikt stjórnkerfi umhverfismála er hér á landi, rannsóknir ónógar, skipulagsmál vanþróuð og löggjöf á ýmsum sviðum úrelt.
Á fundinum kunnu menn vel að meta þann bjartsýna tón sem kom fram í máli Hjörleifs þegar hann staðhæfði að þrátt fyrir þetta væri hann sannfærður um að ef rétt væri að málum staðið á komandi árum gæti Ísland orðið til fyrirmyndar í umhverfismálum. Það krefðist hins vegar vökuls almenningsálits og róttækra breytinga á ýmsum sviðum sem hann rakti lið fyrir lið. Auk breytinga í stjórnkerfinu, væri brýnt að fræðslukerfið sinnti kalli og mikilvægt væri að styrkja almannasamtök sem sinntu umhverfisvernd. Kallaði Hjörleifur Guttormsson eftir pólitískum stuðningi við skýra vistvæna stefnu.
Að rækta garðinn sinn
María Hildur Maack líffræðingur sem sæti á í Náttúruverndarráði hefur sett fram ýmsar athyglisverðar hugmyndir um hverju einstaklingar og samfélagið allt getur fengið áorkað ef vilji er fyrir hendi. Nálgun hennar á umræddum fundi var í anda Voltaire um að hverjum manni beri að rækta garðinn sinn. Nauðsyn væri á breyttu hugarfari þar sem vistvæn hugsun réði för. Með því móti mætti lifa innihaldsríkara lífi í sátt við náttúruna. Íhaldssemi og skortur á hugmyndaflugi stæði okkur hins vegar fyrir þrifum, og eygðum við iðulega fyrir bragðið ekki þá möguleika sem nánasta umhverfi okkar byði upp á eða hver skyldi hafa hugleitt að í íslenska arfanum sem við flokkum flest sem illgresi er að finna ámóta magn af c-vítamíni og í innfluttum sítrónum?
Guðmundur Páll Ólafsson, líffræðingur og rithöfundur, sýndi enn á þessum fundi hver þungavigtarmaður hann er. Að vísu kom það lesendum hinna stórmerku bóka hans, Perlur í Náttúru Íslands, Ströndinni og Fuglar í Náttúru Íslands, ekki á óvart. Guðmundur Páll flutti fundinum magnaða hugvekju með náttúrulífsmyndum. Guðmundur Páll kvað einu gilda hvar menn skilgreindu sig í stjórnmálum, til hægri eða vinstri, ef umhverfið væri ekki í heiðri haft. Að sínum dómi ætti það að vera undirstöðuþáttur stjórnmálanna. Guðmundur Páll hefur í blaðaviðtölum að undanförnu skorið upp herör gegn því sem hann í viðtali við Dag nýlega skírskotaði til sem „peningahyggju“ í umhverfismálum: „Kjarninn er sá,“ sagði Guðmundur Páll, „að það má ekki eyðileggja náttúruperlur og náttúrugersemar fyrir einhvern hugsanlegan stundargróða.“
Virðing fyrir umhverfinu alltaf til grundvallar
Þetta eru orð að sönnu. Og það er vissulega staðreynd að ekki er mikill tími til stefnu því æðubunugangur stóriðjumanna er mikill. Undir varnaðarorð Guðmundar Páls Ólafssonar skal því tekið. Lífsnauðsynlegt er að orkugeirinn með iðnaðarráðherrann í farabroddi og stjórnvöld almennt fái pólitískt aðhald sem einhvers er megnugt. Og ekki nóg með það, þörf er á því að móta lífvænlega langtímastefnu í umhverfismálum. Hér er komin skýringin á því að fyrsti opni fundur Stefnu félags vinstri manna fjallar um þennan málaflokk. Með því viljum við leggja áherslu á mikilvægi umhverfismála fyrir land og þjóð og nauðsyn þess að samþætta náttúruvernd allri pólitískri stefnumörkun.