Stendur Ísland með friði eða stríði?
Sum okkar eru orðin það gömul að muna göngurnar frá Keflavík með kröfu um útgöngu úr NATO og herinn burt.
Ekki sáu leiðtogar okkar ástæðu til að verða við þessari kröfu og segja má að eftirfylgnin hafi fjarað út smátt og smátt þegar stríðsspennan á norður Atlandshafi minnkaði og kaldastríðinu lauk og Varsjárbandalagið var leyst upp. Hvers vegna NATO var ekki leyst upp samhliða hef ég aldrei skilið. Í staðinn varð það verkfæri til stöðugrar og endalausrar ögrunar og er enn þó öðru hafi verið lofað. En miðað við stöðu heimsmála sýnist mér NATO standa á brauðfótum um þessar mundir. Tala nú ekki um ef Trump verður kosinn forseti Bandaríkjanna.
Nú kemur þetta okkur í koll þegar Íslenska þjóðin er búin að skuldbinda sig vegna NATO sáttmálans að leggja fram milljarða íslenskra króna til vopnakaupa í stað þess að leita friðar. Vopnakaupin viðhalda að mínum dómi töpuðu stríði í Úkraínu og auka þannig á hörmungar, mannfall af öllu tagi og eyðileggingu sem sannarlega er nóg fyrir.
Svo er líka spurning um þessi framlög sem send eru til Tékklands sem ekki skorar hátt á lista Transparent International um spillingu. Ég mundi ekki undrast þó partur af þessum framlögum lendi í vasa annarra en til er ætlast.
Það sem kannski er alvarlegast er yfirlýsing Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna frá 29. febrúar á þessu ári, að tapi Úkraína stríðinu muni NATO dragast inn í stríðið við Rússland. (https://www.newsweek.com/nato-will-drawn-war-russia-if-ukraine-loses-lloyd-austin-1874913)
Íslensk stjórnvöld eru líklega byrjuð að undirbúa þátttöku í stríði við Rússland samkvæmt þessu og vegna þrýstings frá NATO að taka þátt í því stríði með mönnun af einhverju tagi. Slíkt yrði þá líklega byggt á ráðleggingum Arnórs Sigurjónssonar fyrrum varnarmálafulltrúa Íslenska ríkisins um íslenskan her. Tapi Úkraína þýðir það að líkindum stigmögnun og nýjar hæðir í þátttöku okkar í stríðsrekstri víða um heim en mér skilst að NATO sé farið að hafa í hótunum við lönd í suðaustur Asíu þar á meðal Kína.
Ég geri ráð fyrir að flestir séu sammála um að róttæk breyting hafi orðið á utanríkisstefnu Íslands án eðlilegs samráðs og mögulega gegn vilja þjóðarinnar.