Fara í efni

STÉTT Á MÓTI STÉTT OG ORÐ Á MÓTI GJÖRÐUM

Sjáfstæðisflokkirnn er nýbúinn að velja sér nýjan formann en augljóst er af tilstandinu í kringum formannskjörið hve inngróin foringjadýrkun er í flokknum.
Nú eru að renna upp breyttir tímar segja fylgismenn nýja formannsins, nú verður það «stétt með stétt» eins og í gamla daga, allir saman á báti, fjármálamenn og verkamenn - og væntanlega einnig kennarar; gömlu góðu gildin um lága skatta og álögur verði höfð í hávegum sem aldrei fyrr.

En hvað gerist svo? Það er ekki liðin vika frá landsfundi þar til árásir hófust á samtök launafólks auk þess sem kröfur voru gerðar um meðlag skattgreiðenda til styrktar einkaframtakinu - sem á endanum mun leiða til hærri skatta og gjalda.

Þetta gerðist þannig að byrjað var á að hrakyrða menntamálaráðherra fyrir að hafa leyft sér að láta þau orð falla í nýafstaðinni kjaradeilu kennara að mikilvægt væri að þeim yrðu greidd laun sem tryggðu þeim viðunandi afkomu þannig að þeir héldust í stéttinni. Þetta var eðlilegt að Ásthildur Lóa Þórsdóttir menntamálaráherra gerði enda ætlað að axla ábyrgð á skólahaldi í landinu.

Næsta skref var að óskapast yfir því að Reykjavíkurborg tæki ákvörðun um að hætta við fyrri ákvörðun um að útsvarsgreiðendum í borginni væri gert að borga með einkareknum leikskólum.
Þarna birtist í hnotskurn sú mótsögn sem jafnan fylgir Sjálfstæðisflokknum, láta sem flokkurinn vilji öllu öðru fremur draga úr útgjöldum ríkis og sveitarfélaga en krefjast þess í hinu orðinu að skattfé verði látið renna til einkafjármagnsins sem þegar allt kemur til alls leiðir til dýrari lausna fyrir allan almenning.

Með öðrum orðum afstaða er tekin gegn stétt kennara en með stétt fjármagnseigenda.

Guðrúnu Hafsteinsdóttur, nýkjörnum formanni Sjálfstæðisflokksins var mikið niðri fyrir á Alþingi síðastliðinn fimmtudag. Hún vill að sönnu fjölga leikskólum og starfsfólki þeirra enda augljós skortur: «Fyrirtækin í landinu finna fyrir þessari vöntun á leikskólaplássum og vilja mörg fyrirtæki koma til móts við sitt fólk með því að reka jafnvel eigin dagvistun eða að byggja leikskóla. Í gær lýsti nýr borgarstjórnarmeirihluti því hins vegar yfir að fyrirtæki hér í borg fengi ekki leyfi til að byggja leikskóla fyrir börn starfsfólks. Reykjavík hefur því eitt sveitarfélaga tekið fyrir byggingu fyrirtækjaleikskóla … Meiri hlutanum í borginni hugnast einfaldlega ekki lausnir einkaframtaksins og sú afstaða þeirra kemur í veg fyrir að byggður verði nýr leikskóli þar sem ætla má að leikskólakennarar gætu fengið betri laun. Það er ótækt að undirliggjandi vantraust í garð einkaframtaksins komi niður á börnum og komi í veg fyrir atvinnuþátttöku foreldra..”

Ásthildur Lóa Þorsdóttir, menntamálaráðherra minnti meðal annars á það í svari sínu að hún væri ekki í borgarstjórn og þess vegna ekki málsvari borgarinnar, «en samkvæmt þeim fregnum sem ég hef heyrt þá er það bara ekki rétt að þau ætli að banna þennan leikskóla hjá borginni. Þau ætla hins vegar ekki skilst mér að greiða með þessum börnum. Lausnir einkaframtaksins geta verið og eru gríðarlega mikilvægar en þetta þarf að skoða út frá öllum þáttum og að hér skapist ekki tvöfalt kerfi. Það er alveg ljóst að það þarf að stíga hér inn. Það er skortur á kennurum, það er nú eitt, það er skortur á leikskólakennurum. Stærsti vandi leikskólanna í dag, það er skortur á leikskólakennurum. Og hvernig ætla einkafyrirtækin að fá leikskólakennara? Þau ætla að hækka launin þeirra. Er þetta ekki sama fólk og kvartar yfir því oft á tíðum ef laun kennara eru hækkuð? Og er það sanngjarnt að sumir og sum börn fái menntaða leikskólakennara af því að það er fyrirtæki sem er tilbúið að borga fyrir bara þessi börn?...»

Formúla Sjálfstæðisflokkisns er margreynd. Fyrirtæki reisi byggingar, t.d. leikskóla og skóla, reki einnig starfsemina en útsvars- og skattgreiðendur borgi fyrir hvort tveggja nema þá «extra launin» sem ekki mega renna inn í kjarasamningsbundin kjör. Þetta kerfi er dýrara þegar upp er staðið vegna tilkomu milliliða.  

------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.