STIGGENABB!
Við skildum ekki allt sem sagt var í kúrekamyndunum sem sýndar voru í Austurbæjarbíói uppúr miðri öldinni sem leið. En boðskapurinn náði í gegn. Þegar við tókum til við að umskapa bíóhasarinn í kabbojleik í stillasahlöðunum við nýbyggingarnar á Melunum, þá vissum við að stiggenabb þýddi „upp með hendur, gefstu upp!" Nákvæmari skilningur á einstökum orðum þessarar skipunar „stick ´em up" var óþarfur. Við skildum inntakið og réttum upp hendur eða féllum niður dauðir ef því var að skipta með ímyndaða byssukúlu í hjartanu.
Oftast skiljum við boðskapinn án þess að hann sé beinlínis stafaður ofaní okkur. Þannig fer það ekkert á milli mála hvað samgönguráðherrann okkar ástsæli er að fara þessa dagana. Og fyrir vikið kannski ekki alveg jafn ástsæll þegar kemur að fjármögnun vegakerfisins. Ekki er annað að heyra en nálgun hans sé hið gamalkunna stiggenabb. Annað hvort borgið þið vegatolla eða þið fáið engar vegabætur.
Þegar ég kom í samgönguráðuneytið sem ráðherra í árslok 2010 voru á vinnsluborðinu áform um tvöföldun vegakerfisins út frá höfuðborginni vestur á land og suður. Hugmyndin var sú að fjármagna framkvæmdir með vegatollum. Sveitarstjórnarmenn hrópuðu á þetta og undir kyrjaði djúpraddaður verktakakór. Félag íslenskra bifreiðaeigenda stóð hins vegar vaktina og sagði að nógar álögur væru komnar á umferðina. Og ég fór að heyra fleiri raddir. Eigendur og rekstraraðilar veitingastaðanna á Ölfusársvæðinu sögðu að ekki þyrfti mikið til að humarsúpuferðirnar í sunnudagshádeginu legðust af og blómaræktendur í Hveragerði sögðu eitthvað svipað.
En hugmyndin var semsagt sú, að þessir vegir yrðu teknir út úr ramma samgönguáætlunar því gjaldtakan gerði ríkissjóð stikkfrí, svona svipað og sagt var um Vaðlaheiðargöng, enda sama leiksvið.
Ég kallaði til fundar alla sveitarstjórnarmenn á vestanverðu Suðurlandi og á sunnanverðu Vesturlandi og spurði hvort þeim væri alvara að tala fyrir því að vegfarendur greiddu allan tilkostnaðinn upp úr eigin vasa. Kannski ekki alveg allan sögðu þeir! Ég sagði að þetta væri annað hvort eða, allt eða ekkert, og fyrst þeir vildu ekki fullla gjaldtöku þá skildum við gleyma þessu. Stiggenabb, myndi einhver segja. Og sú varð niðurstaðan.
Nú er það svo að smám saman erum við að laga þessa vegi, á heldur ódyrari hátt en til stóð, 2X1 eins og það heitir í stað 2X2, sem er tvöföldun og eflaust ágæt í Katar þar sem menn vita ekki aura sinna tal. Við eigum hins vegar svo margt ógert áður en við förum að kasta fé á glæ með þessum hætti enda ófrýnilegra vegakerfi í ofanálag. Og á meðal annarra orða, voru það ekki hægri menn sem segja helstan ljóð á ráði vinstri sinna vera þann að vilja eyða peningum annarra? En hvað heitir þetta þá, að heimila verktökum að seilast ofan í vasa okkar við hvert fótmál?
Ekki misskilja. Það þarf að gera úrbætur á vegakerfinu og þar er sumt brýnna en annað án þess að ég fari nánar út í þá sálma. Þó vil ég segja eitt. Jóni Gunnarssyni, samgönguráðherra, er vorkunn. Ég heyri nefnilega aftur hinn dimmraddaða kór færa sig upp eftir tónskalanum. Vegakerfið er ónýtt kyrjar kórinn og það sem ekki er ónýtt er að hrynja eins og ferðamannastaðirnir, hafa menn séð þá? Og alþingismenn sem vilja eiga vingott við kjósendur samsinna.
En er þetta rétt? Og vilja kjósendur þetta? Nei, svo er ekki. Ég hef verið tíður gestur á fjölförnum ferðamannastöðum og séð hve margt er þar til fyrirmyndar og fer batnandi. Alla vega er ekki tilefni til histeríu.
Jón minn Gunnarsson, láttu Hrein vegamálastjóra fá nokkra milljarða í kamrana, hann má bjóða þá út mín vegna, og síðan nægilegt fjármagn í viðhald og úrbætur. Taktu síðan verktakaplötuna af fóninum og vertu í liðinu með okkur sem nennum ekki lengur að hlusta á hræðsluáróður þeirra sem tala máli eiginhagsmuna sinna. Svo erum við líka miklu fleiri sem viljum ekki vegatolla. Þar á meðal eru kjósendur samgönguráðherrans! Stiggenabb Jón.