Fara í efni

Stjórn fyrir almenning en ekki einstakling

Ungir jafnaðarmenn eru hamingjusamir þessa dagana enda hafa þeir kvartað mjög undan því að Samfylkingin væri að sumu leyti dálítið gamaldags og mosavaxið fyrirbæri. En nú er liðstyrkurinn kominn fyrir nútímalega jafnaðarmenn með frjálshyggjulegu hægriívafi. Hinir ungu eiga vart orð til að lýsa borgarstjóranum í Reykjavík. Samþykkt stjórnar ungra jafnaðarmanna í Reykjavík er birt undir atvinnuauglýsingunum í Mbl. 22. des. s.l. og kannski er staðsetningin vegna þess að nú þurfa ýmsir stjórnmálamenn að fara að huga að nýrri vinnu – og það fleiri en Halldór karlinn Ásgrímsson. En í samþykktinni segir m.a.:

“Ingibjörg Sólrún er gríðarlega sterkur stjórnmálamaður sem hefur margsannað verðleika sína ... Hún verður rós í hnappagat Samfylkingarinnar ... Að krafta Ingibjargar muni njóta við er Samfylkingunni mikill akkur. Kosningabaráttunni mun ljúka í vor þegar Davíð Oddsson hreinsar úr skrifborðinu við Lækjargötu og tekin er við ríkisstjórn sem setur einstaklinginn í 1. sætið og hafnar þeirri sérhagsmunagæslu sem hefur ráðið ríkjum í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins.”

Gleði ungra jafnaðarmanna er skiljanleg í ljósi grunnhyggnislegrar persónudýrkunar sem að baki býr. En áherslan á einstaklinginn gengur þvert á allar jafnaðarhugsjónir. Það á að kjósa stjórn fyrir almenning en ekki einkstakling.
Þorleifur