STJÓRNARSKRÁ - KOSNINGAR - EIGNARRÉTTUR
Stjórnlagaþing varð að Stjórnlagaráði og Stjórnlagaráð smíðaði drög að stjórnarskrá. Drögin eru að mörgu leyti prýðileg og er mikilvægt að þeim verði skotið til þjóðarinnar sem segi hug sinn til þeirra. Spurningin er hvernig. Ákjósanlegast væri að mínu mati að láta kjósa um allan textann, en þó kaflaskiptan. Sjá mína afstöðu í þinginu: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20120321T160411&horfa=1
Almenn kosning til góðs
Almenn kosning er mikilvæg þannig að ráð, þjóð og þing geti kallast á við smíði nýrrar stjórnarskrár.
Meirihluti Allsherjarnefndar leggur til að kosið verði um nokkrar afmarkaðar spurningar. Það er erfiðara viðfangsefni en að kjósa um textann allan. En gott og vel, Ef þessi yrði raunin þyrfti að mínu mati að fjölga spurningunum frá því sem fram kemur í tillögu meirihluta Allsherjarnefndar. (sjá hér: http://www.althingi.is/altext/140/s/1019.html )
Nefskattur, EES og Icesave
Að lágmarki tel ég að bæta þyrfti inn spurningu um hvort kjósendur væru tilbúnir að takmarka í stjórnarskrá réttinn til að kjósa um atriði fjármalalegs eðlis, svo sem skatta og einnig hvort ásættanlegt sé að bannað verði í stjórnarskrá að kjósa um þjóðréttarlega samninga. Þetta er vafasamt í meira lagi.
Það er grundvallaratriði að rétturinn til ákvarðanatöku er einstaklinganna í þjóðfélaginu. Þótt þeir framselji rétt sinnn til ákvarðanatöku tímabundið fulltrúum á þingi eða í sveitarstjórnum eiga þeir hvenær sem er að geta kallað þennan rétt sinn til baka - algerlega óháð því hvernig þeir hyggjast nýta sér hann.
Síðan má taka ýmis dæmi um hvað takmörkun á kosningaréttinum samkvæmt tillögum Stjórnlagaráðs myndi hafa í för með sér. Undir lokin á valdatíð Íhaldsflokksins í Bretlandi á 10. áratug síðustu aldar riðaði ríkisstjórn til falls út af umdeildum nefskatti. Þvert á flokkslínur var þessum skatti mótmælt. Væri eðlilegt að banna í stjórnarskrá þjóðaratkvæðagtreiðslu um málefni af þessu tagi? Og hvað með Icesave eða EES samninginn eða einstök ákvæði hans? Á að binda í stjórnarskrá bann við slíku? Að sjálfsögðu ekki. Það er mín skoðun og ég vil láta spyrja um þetta.
Áður um þetta skrifað
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég hef mótmælt þessari tillögu Stjórnlagaráðs um takmörkun á kosningaréttinum (sbr. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/stjornlagarad-og-lydraedid-grin-eda-alvara )
Á Alþingi komu tillögur Allsherjarnefndar til stuttrar umræðu í síðustu viku þegar greidd voru atkvæði um hvort málið skyldi þá tekið á dagskrá. Lýsti ég þá þessu almenna viðhorfi mínu einsog sjá má hér:.
Úrelt eignarréttarákvæði
Ég læt bíða betri tíma að ræða eignarréttarákvæði og að hvaða marki þau skuli gerð að grundvallarréttindum í stjórnarskrá. Ég tel að svo eigi ekki að vera. Stjórnarskrárvarin eignarréttidi tel ég vera úrelt í núvernadi mynd. Eignarréttur einstaklings og fjölskyldu á íbúð og landi til búskapar eða beinna afnota af fé, tækjum og tólum til eigin þarfa má vissulega líta á sem grundvallarrétt.
En þar lýkur líka heilagleika eignarréttarins - að mínu mati - og á ekki heima í stjórnrskrá.
Geysir og Dettifoss
Ekki er ýkja langt síðan að Geysir í Haukadal var í einkaeigu, Dettifoss er nú að hluta til í einkaeigu. Á sá eignarréttur að vera stjórnarskrárvarinn og að full greiðsla skuli koma fyrir ef hann yrði skertur (hvað sem það svo þýðir). Þetta leggur Stjórnlagaráð til. Er búið að hugsa þetta til enda? Ég held ekki. Ef ekki þá þarf að ræða þetta i aðdraganda almennra kosninga um þessar tillögur. Að öðrum kosti yrði tekist á um þetta á þingi. Ég óttast hins vegar að þingið yrði íhaldssamara en þjóðin.Sá er vandinn. Hvað sem því líður á þjóðin rétt á beinni aðkomu að öllum þáttum nýrrar stjórnarskrár.