Fara í efni

STJÓRNMÁL (EIGA AÐ) SNÚAST UM HAGSMUNI

Það er eitthvað mikið að í pólitíkinni þessa dagana. Vantraust á stjórnmál birtist í stuðningi við flokka sem hafa það fyrst og fremst fram að færa að alir aðrir en þeir séu vanhæfir og enginn sé að leita raunhæfra lausna nema þeir. Sjálfar lausnirnar minnast þeir hins vegar aldrei á. Heldur bara að enginn kæri sig um lausnir nema þeir. Svo er stigið í pontu á Alþingi og spurt með þjósti hversu lengi menn ætli að vera í sandkassaleik. Með svona framkomu virðast menn eiga greiða leið inn í fréttatímana og í sandkornapistla blaðanna.
Ég fæ hins vegar ekki betur séð en átökin á þingi snúist um málefni og þakka ég fyrir hvern dag sem menn hafa dug í sér til að takast á um grundvallaratriði í stjórnmálum og láti yfirborðsfólk ekki taka stjórn á umræðunni. Þannig færðust nefnilega völdin til þeirra sem hafa undirtökin í þjóðfélaginu - þeirra sem ráða yfir fjármagninu. Með sofandahætti spjallstjórnmála mun öllu steini léttara verða stolið af þjóðinni áður en spjallararnir verða búnir úr kaffibollanum.
Eða halda menn að það snúist bara um spjall yfir kaffibolla hvort hér verður áfram eignarhalds-kvótakerfi í sjávarútvegi, almannarekið heilbrigðiskerfi, friðlýstar náttúruperlur, orkan í eigu almennings og þannig mætti áfram telja? Þetta er alvöru hagsmunabarátta og stjórnmálamenn verða að leggja sig fram af öllum lífs- og sálakröftum í þeirri baráttu í þágu almannahags.
Jóel A.

p.s. Síðan verð ég að bæta því við að þeir stjórnmálamenn á Alþingi sem mest skammast út í aðra fyrir leiðinlega framkomu virðast sérhæfa sig í henni sjálf(ir)