STÖÐUGLEIKI?
10.11.2009
Fyrir nokkrum dögum stóðu fjölmiðlar á öndinni yfir því hvort svokallaður Stöðugleikasáttmáli héldi. Ásteitingarsteinninn var skattastefna ríkisstjórnarinnar. Ég skal játa að mér hefur fundist aðilar vinnumarkaðar misnota þennan sáttmála sem þeir gerðu við ríkisvaldið í vor. Er ég þar einkum að tala um Samtök atvinnulífsins. Atvinnurekendasamtökin hafa með beinum og óbeinum hætti haft í hótunum við ríkisstjórnina. Hótunin er ófriður á vinnumarkaði og byggir á því að hafa af láglaunafólki kjarabætur ef ekki er orðið við kröfum atvinnurekenda um að hlífa vildarvinum þeirra, fjármagnseigendum og stóriðjunni. Þetta eru þeir aðilar á Íslandi sem helst eru aflögufærir. Nei, frekar skal almennt launafólk skattlagt, skorið niður á heilbrigðisstofnunum og kjör öryrkja og aldraðra skert en að hrófla við þessum mannskap. Hvers virði er "stöðugleiki" um slíkt ástand? Í mínum huga er Stöðugleikasáttmáli sem byggir á félagslegu ranglæti verri en einskis virði. Hann færir stóreignafólki og stóriðjurisum kverkatak á ríkisstjórn og nota þeri vald sitt til að níðast á þeim sem síst skyldi. Ríkisstjórnin verður að hætta undanslætti gagnvart freku fjármagninu. Ef það gerist ekki er hætt við því að raunverulegur stöðugleiki verði fyrir bí.