Fara í efni

STÖÐVIÐ ESB SKRÍPALEIKINN!

Sæll minn kæri Ögmundur. Í ráðherraliði VG sé ég þig einan færan um að lemja nú kröftuglega í borðið og stöðva þennan skrípaleik sem heitir vangaveltur um hugsanlega aðild að ESB. Í mínum huga lítur út fyrir að þessar vangaveltur séu orðnar að formlegri umsókn. Alla vega eru Össur og hans fólk að hefja samlestur á fyrstu 4 köflum Evrópusamþykktar aðildarríkjanna nú í lok júní. Kannske óþarfa áhyggjur segja einhverjir þar sem jú þessir kaflar hafa allir löngu verið samþykktir í EES samkomulaginu, en hvað með rest, hvað með sjávarútveginn, hvað með eftirlitsstofnanirnar okkar sem missa sjálfstæði sitt til ákvarðanna um öll viðkvæmustu mál í okkar litla hagkerfi, hvað með landbúnaðinn, á að eftirláta samstarfsflokknum það að slátra honum. Ef menn hafa ekki tekið eftir því þá er Evrópusambandið að þróa sjávarútvegsstefnu sína með okkar stjórnun og veiðireynslu að leiðarljósi, eflaust til að gera okkur auðveldar fyrir vikið að ganga í snöruna. Nei Ögmundur minn góður, nú er lag að ganga á milli bols og höfuðs og skera á samstarfið, málið er nefnilega að það verður erfiðara með hverjum deginum að ætla að ganga til næstu kosninga og að segja fólkinu að höfuðandstæðingarnir séu þeir sem vilja í ESB.
Kveðja til þín,
Óskar K Guðmundsson fisksali.