Stolið frá höfundi Sovétríkjanna
Blessaður og sæll Ögmundur.
Fyrirhuguðum framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og álver við Reyðarfjörð hefur verið líkt við atvinnuuppbyggingu í Sovétríkjunum á tímum Stalíns. Þarf þó ekkert endilega að binda sig við Stalínstímann því miðstýrt atvinnulíf Sovétríkjanna var löngum á sandi byggt. Þar var sjaldnast hugað að arðsemi eða markaðsmálum og aldrei að umhverfismálum.
Með virkjuninni og álverinu austur á fjörðum hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks seilst í gjaldþrota hugmyndabanka Stalíns: Í startholunum er risavaxið, miðstýrt ríkisverkefni. Ríkisstjórnin ætlar að reisa sér tröllaukið minnismerki eins og veruleikafirrtum einræðisherrum er svo gjarnt að
Kveðja, Þórður
Sæll Þórður.
Mér verður líkt og þér stundum hugsað til þessarar sömu samlíkingar: Stóriðjustefnu Jóseps Stalíns og ofurtrú framsóknarmanna á stóriðjuframkvæmdir. Einblínt er á risaverksmiðjur þar sem atvinnuvandi þorra íbúa á stóru svæði er leystur í einu vetfangi og síðan húrrahrópað fyrir gjaldeyrisöflun. Hitt er ekki spurt um hver tilkostnaðurinn er við atvinnusköpunina og gjaldeyrisöflunina og hvort aðrir og heppilegri valkostir séu fyrir hendi. Það er athyglisvert hve mjög ríkisstjórnin er að einangrast í þessu máli og þeim fjölgar forsvarsmönnum fyrirtækja sem hafa miklar efasemdir um stóriðjuáformin. Birst hafa margar athyglisverðar greinar um efnahagslegar forsendur verkefnisins þar sem sýnt er fram á að það gengur ekki upp. En eins og við munum þá var Jósep lítið gefinn fyrir gagnrýni og það á við um fleiri eins og nýleg dæmi sanna. Reyndar er herferð Framsóknarflokksins gegn vísindamönnum og náttúruverndarmönnum sem efast hafa um áform þeirra hreint með ólíkindum.
Kveðja, Ögmundur