Fara í efni

STÖNDUM MEÐ TRÚNAÐARMÖNNUM VIÐ KÁRAHNJÚKA


Forsvarsmenn norrænu verkalýðshreyfingarinnar, NFS, héldu fund í Reykjavík í síðustu viku en í framhaldinu var efnt til ferðar að Kárahnjúkum til þess að kynnast aðstæðum þar og ræða við trúnaðarmenn launamanna á virkjunarsvæðinu. Efni Reykjavíkurfundarins rímaði prýðilega við þessa heimsókn því á honum var m.a. fjallað um vandamál sem fylgdu erlendum verktakafyrirtækjum og tilraunum þeirra til að draga úr tilkostnaði með því að færa kjör launafólksins eins langt niður og nokkur kostur er. Undirboð nefnist það þegar kjörin eru lakari en kjarasamningar á viðkomandi svæði kveða á um. Í heimsókninni að Kárahnjúkum kom fram að aðstæður verkamanna væru mun betri en í upphafi og væru hinum erlendu verkatakafyrirtækjum að lærast að verkalýðshreyfingin á Íslandi lætur ekki vaða yfir sig á skítugum skónum. Oddur Friðriksson, aðaltrúnaðarmaður Alþýðusambandsins við Kárahnjúka fór með okkur um svæðið og leiddi okkur í allan sannleika um stöðu mála. Hann og félagar hans eiga þakkir skildar fyrir vel unnin störf og það mega þeir vita að þeir hafa alla íslensku verkalýðshreyfinguna að baki sér í því mikilvæga verkefni sem hvílir á þeirra herðum.  
Sjá nánar Hér.