STÓRFRÉTT RÚV UM FYRSTU KONUNA
Reynsla okkar Íslendinga er sú að sennilega eru stjórnmálafræðingar allra snjöllustu stjórnmálaskýrendur sem völ er á. Einn slíkan dró Ríkisútvarpið ohf. upp að hljóðnemanum í dag. Sá heitir Gunnar Helgi Kristinsson og er prófessor við HÍ. Naumast verður annað sagt, eftir að hafa hlýtt á boðskap hans, en að í þeim skóla blómstri fræðin í öllum skúmaskotum. Gunnar Helgi hefur m.a. komist að þeirri athyglisverðu niðurstöðu að vegna mikils þingmeirihluta væntanlegrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar muni stjórnin eiga mjög auðvelt með að koma málum í gegn á Alþingi! Þetta er vel að verki staðið hjá prófessornum. Þá segir prófessorinn einnig að stjórnarandstaðan gæti orðið máttlítil vegna smæðar sinnar, “sem og einstakir þingmenn”! Þetta er einnig afar fróðleg niðurstaða en gaman væri auðvitað að fá frekari skýringar á slappleika einstakra þingmanna. Ekki er að efa að þær liggja á lausu eins og annað.
Rúsínan í karlrembuenda Ríkisútvarpsins og prófessorsins, með hliðsjón af tilboðum VG og Framsóknar til Samfylkingarinnar, er svo að flagga því að þegar stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefjist verði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrst kvenna til að fara fyrir slíkum viðræðum íslensks stjórnmálaflokks! Ég spyr: Er til of mikils mælst að Ríkisútvarpið reyni að gera örlítið betur við landsmenn í fréttaflutningi sínum?
Þjóðólfur