Fara í efni

STÓRGÓÐUR ANDRÉS


Egill Helgason hefur náð því sem Mogginn hefur náð fyrir löngu: Maður verður eiginlega að sjá þáttinn.  Það þýðir ekki að maður sé alltaf 100% sáttur - ekkert fremur en að maður sé alltaf sáttur við Moggann. Í báðum tilvikum þyrfti oftar að róa á róttækari mið - og gagnrýnni á vald og viðteknar skoðanir - þótt vissulega sé það stundum gert.  
Mér fannst gaman að heyra í viðmælendum Egils í dag og tek undir það sem fram kemur í lesendabréfi hér á síðunni þar sem Grími Atlasyni og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur er sérstaklega hrósað fyrir góðan málflutning. Sá maður, sem ég ætla hins vegar að staldra við er Andrés Magnússon, læknir, sem einnig kom fram í þættinum.
Andrés var útpældur  einsog stundum er sagt, búinn að hugleiða hræringar í efnahagslífi og fjármálaheimi, einkavæðingu og útrás og það sem meira er, leggja niður fyrir sér tölur og stærðir og reikna - reikna sjálfur. Það er því miður orðið alltof fátítt að menn láti ekki mata sig heldur beiti dómgreind sinni sjálfstætt og brjótist áfram af eigin rammleik. Þetta hefur Andrés Magnússon gert, enda mæltist honum vel, talaði af viti og þekkingu.
Andrés benti á að vissulega hefðu vextir lækkað á sama tíma og bankarnir voru einkavæddir - en það hefði hins vegar aldrei fylgt með í fréttaskýringum að á þeim tíma voru vextir að lækka á heimsvísu og því rangt að þakka einkavæðingunni vaxtalækkanirnar. Fyrir „útrásina" gaf Andrés Magnússon ekki mikið. Útrás væri, að hans mati, orð sem notað væri til upphafningar en segði  okkur ekki neitt. Andrés benti á að þrátt fyrir allan víkinginn og útrásina væri eignastaða okkar í útlöndum að versna en ekki batna  og Íslendingar væru orðnir skuldsettasta þjóð í þeim hluta heimsins sem við mátuðum okkur inni í. Og - ef illa fer; hvað þá? Þá borgum við.  Stóru fjárfestarnir maka krókinn - hinn óbreytti hermaður þarf að heyja stríðið -og  reikningurinn, hann endar á mínu borði sagði Andrés Magnússon í þessu áhrifamikla viðtali í Silfri Egils í dag.
Því miður eru í okkar samtíma alltof sjaldgæfir menn, sem kunna að hugsa sjálfstætt.  En þegar þeir tala þá er hlustað. Hvar sem ég hef farið í dag frétti ég að menn vilji heyra meira frá Andrési Magnússyni, lækni.
Hér er viðtalið: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4366867