Fara í efni

STRANDFLUTNINGAR ORÐNIR AÐ VERULEIKA Á NÝ

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 28.03.13.
Vöruflutningar til og frá landinu og um landið eru sívaxandi og nauðsynleg atvinnugrein í nútímaþjóðfélagi. Fyrirtæki um land allt framleiða afurðir til að senda á markað innanlands eða til útflutnings og til framleiðslunnar þurfa þau margs konar aðföng. Hlutverk innanríkisráðuneytisins í þessu samhengi er að byggja upp og reka öflugt og skilvirkt samgöngukerfi sem þjónar landsmönnum öllum og gerir búsetuskilyrði sem jöfnust um landið.
Um og upp úr síðustu aldamótum dró mjög úr flutningum við landið með skipum og hættu íslensku skipafélögin strandsiglingum að lokum alveg, annað árið 2000 og hitt 2004. Þessir flutningar færðust þá yfir á þjóðvegina. Skipafélögin og önnur vöruflutningafyrirtæki hafa allar götur síðan byggt upp þéttriðið net sem þjónar flestum byggðum landsins með daglegum ferðum flutningabíla og laga flutningakerfi sín að þörfum atvinnulífsins hverju sinni.

Áraun fyrir vegakerfið

Vöruflutningar á landi eru mikil áraun fyrir þjóðvegina og vitað er að ein ferð dráttarbíls með tengivagni og alls 30 til 40 tonna æki slítur vegi jafnmikið og þúsundir, jafnvel tugþúsundir, fólksbíla af meðalstærð. Niðurbrot á burðarlagi vega ræðst þó af fleiri þáttum svo sem burðarþoli vega, búnaði flutningabíls, hjólbörðum og fjöðrunarkerfi. Reiknað hefur verið út að vöruflutningar á vegum hafi í för með sér kringum 300 til 500 milljóna króna árlegan kostnað í auknu viðhaldi vegakerfisins.
Um alllangt skeið hafa samgönguyfirvöld látið kanna kosti þess að koma strandflutningum á að nýju. Forveri minn í starfi tók málið upp og komst vinnuhópur sem hann skipaði að því að strandsiglingar gætu verið hagkvæmur kostur miðað við ákveðnar forsendur. Kostir sjóflutninga eru fyrst og fremst hagkvæmni stærðar og þar með lægri flutningsgjöld en ókostir eru aukið birgðahald og að varan er ekki komin á leiðarenda þótt hún sé flutt frá einni höfn til annarrar.

Strandsiglingar ákveðnar

Á Alþingi hefur lengi verið þverpólitísk samstaða um að koma strandflutningum á að nýju en málið hefur ekki verið leitt til lykta. Þótti mér mikilvægt að taka af skarið og vorið 2011 skipaði ég starfshóp sem falið var það hlutverk að leggja fram tillögur um hvernig koma mætti á strandsiglingum og undirbúa útboðslýsingu. Hópurinn lagði fram drög að rekstraráætlun og miðaði við vikulegar siglingar hringinn í kringum landið og að líklegir flutningar gætu numið um 70 þúsund tonnum á ári. Bjóða ætti verkefnið út og miða við að nokkurra ára stigminnkandi styrkur myndi ýta undir frekari markaðssetningu fyrirtækjanna og þróun þessa kerfis. Ríkisstjórnin áréttaði síðan 1. mars síðastliðinn samþykki við tillögu minni um að ráðast í útboð sem byggðist á þessum forsendum.
Nú bregður svo við að tvö helstu skipafélög landsmanna hafa tekið upp aukna þjónustu í siglingum við landið og fara nú norður fyrir landið á leið sinni til Evrópu. Koma skipin við á fleiri höfnum en áður og flytja vörur til útflutnings. Þetta þýðir minnkandi landflutninga milli staða til að ná til útflutningshafnar. Þetta þéttara siglinganet skipafélaganna um landið getur líka þýtt aukna flutningaþjónustu milli staða innanlands sem dregið getur úr þörf á landflutningum. Komið hefur fram hjá öðru skipafélaginu að þessi breyting þýði að fækkað verði ferðum flutningabíla og útflytjendur telja þetta hafa minnkandi flutningskostnað í för með sér.
Skipafélögin sjálf hafa með öðrum orðum tekið að sér verkefnið og sjá sér hag í því að auka þjónustu sína að þessu leyti. Hvort ákvörðun um væntanlegt útboð á þátt í þessari nýju þjónustu skipafélaganna skal ósagt látið en hér eru þau að útfæra að miklu leyti þá hugmynd sem útboð strandsiglinganna snerist um. Verði þetta til framtíðar er tilgangi með útboði á strandsiglingum náð og því ákvað ríkisstjórnin að fresta fyrirhuguðu útboði.
Fylgst verður með því hvernig þetta gengur eftir en vissulega er það ánægjulegt ef strandsiglingar eru hér með komnar á að nýju.