Sturla axli ábyrgð
Á Alþingi hefur þess verið krafist að upplýst verði um starfslokasamning fyrrverandi forstjóra Landssímans hf. Þetta er sjálfsögð krafa. Þeim fjölgar dæmunum af forstjórum og stjórnarformönnum sem hygla hver öðrum með himinháum greiðslum þegar þeir skipta um starfsvettvang eða þegar þeim er skipt út; þegar þeir eru færðir til á taflborði valdastjórnmálanna. Þjóðin fylgdist með þegar stjórnarformaður Sölumiðstöðvar Hraðfrystihúsanna var færður frá SH á reit stjórnarformanns Landssímans hf. Hann fórnaði síðan framkvæmdastjóra Símans hf. með tugmilljóna meðgjöf. Spillingardæmunum fjölgar, silfurpeningum er útdeilt og þjóðin horfir agndofa á. En hver ber ábyrgð á þróuninni? Að sjálfsögðu sú ríkisstjórn sem hefur skapað gróðrastíu spillingarinnar. Enn á þjóðin Landssímann hf. eins og hún átti Lands- og Búnaðarbankana þegar þeim var fyrir nokkrum árum breytt í hlutafélög og pakkað inn í gjafapappír. Og skyldi vera gleymd ríkismeðgjöfin með lífeyrisréttindum toppanna í Útvegsbankanum og fleiri bönkum sem runnu saman í Íslandsbanka. Gjafmildin umvafði þá sem vermdu leðursætin en hún náði ekki niður í afgreiðslusalinn fremur en nú. Samtrygging hálaunafólks sem ráðskast með almannafé er jafnan í réttu hlutfalli við launakjör. Því lægri laun, því minni samúð.
En aftur að Landssímanum. Fyrir hönd þjóðarinnar fer ríkisstjórnin þar með meirihlutavald. Hlutabréf þjóðarinnar er á hendi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Hans er því valdið. Ef hann kynni að fara með vald sitt væri hann fyrir löngu búinn að varpa ljósi á allt sem snertir starfslokasamninga Þórarins V. Þórarinssonar. Það hefur hann hins vegar ekki gert - en ber að gera. Þangað til ber hann ábyrgð á spillingunni, rétt eins og viðskiptaráðherrarnir sem sömdu um ofurkjörin í bönkunum og starfslokakjörin sem aldrei þoldu dagsins ljós.